Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:42:11 (6140)

2002-03-13 14:42:11# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Áður tíðkaðist að nefndasetur fyrir hreppsnefndir og bæjarstjórnir væru ólaunaðar. Síðan var það talið há mjög þessu starfi öllu að fólk fékkst ekki lengur til að taka slíkt að sér vegna þess að ekkert var fyrir það að hafa. Fólk þurfti að fara úr vinnu og sinna þessari skyldu sinni. Þess vegna hefur smám saman verið farið út í að að launa allar nefndir.

Á vegum ríkisins háttar samt svo til, sem ég held að sé kannski óvenjulegra að verða en hjá sveitarfélögunum, að sumar nefndir eru árum saman ólaunaðar. Ég sit sjálfur í einni slíkri nefnd, hef setið þar í mörg ár, og ekki fengið eina einustu krónu fyrir þá setu. Ég hef haft ánægju af því starfi og hef ekki talið eftir mér að starfa launalaust í þeirri nefnd. Ég tel þetta líka spurningu um að þingmenn hafi tækifæri til að fylgjast með málum sem þeir hafa áhuga á og þá skipta peningarnir ekki máli.