Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:48:14 (6144)

2002-03-13 14:48:14# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það var margt undir hjá hv. þm. í lokin sem tengist reyndar öðrum málum. Ég hef áður svarað því að þegar leitað var til þessara nefndarmanna sérstaklega voru þeir valdir vegna sérfræðiþekkingar sinnar og greiðslur til þeirra voru miðaðar við að þeir reka allir eigin stofur. Slíkir menn fást ekki til starfa nema með greiðslum eins og um var rætt því að þeir hverfa frá stofum sínum og þeim rekstri sem þeir verða að halda uppi. Þeir þurfa að tryggja að aðrir starfsmenn stofunnar haldi launum sínum þó að þeir séu annars staðar með sína sérfræðiþekkingu þannig að ... (ÖJ: Voru taxtarnir með samþykki ráðherranefndarinnar?) Nei, taxtarnir voru ekki bornir undir nefndina. Ég er samt ekki að segja að þó að það hefði verið gert hefðu þeir verið lægri þannig að ég er ekki að koma neinni sök frá okkur á nokkurn annan í þeim efnum.

Ég vek athygli á því aftur að í Tímariti lögfræðinga tala menn um að lögfræðingar eigi ekki að ráða sig í vinnu fyrir minna en 9 þús. kr. á tímann, sem er næstum helmingi hærri taxti en þarna er farið eftir, vegna þess fasta kostnaðar sem þeir bera hvar sem þeir verja tíma sínum.

Hv. þm. Karl Matthíasson talaði um úthlutun nefndasæta sem er dálítið gamaldags hugsun því að enginn úthlutar nefndasætum, a.m.k. oftast nær. Ég hef frekar lent í því í seinni tíð að eiga erfiðara en áður með að fá hæfa menn til að setjast í þessar nefndir. Ég hef meira að segja lent í því að menn sem ég hef fengið til nefndastarfa hafa haft samband við mig eftir að hafa fengið greitt frá svokallaðri þóknananefnd og sagt: Jú, jú, ég geri þetta fyrir þig einu sinni en miðað við þessa greiðslu geturðu aldrei beðið mig um þetta aftur. Það er nú bara þannig. Þetta hljómar undarlega en svona er þetta engu að síður.

Ég vil líka svara því varðandi breytingarnar um kjaranefnd og Kjaradóm að erfiðara er orðið að fá hæfustu embættismennina til að taka að sér jafnmikil störf utan hinnar hefðbundnu vinnu eins og maður kannski mundi kjósa vegna þess hvernig greitt er fyrir þetta. Í því efni hafa ráðherrar engin tök á að gera neitt hversu valdamiklir sem menn kunna að halda að þeir séu.

Varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason nefndi um kynjagreininguna veit ég ekki betur en ráðuneytið svari reglubundið, ég held árlega, fyrirspurnum félmrn. um skipun í nefndir, karla og konur, og þar komi það fram og þess vegna sé ekki ástæða til að það komi fram hér.