Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:03:08 (6150)

2002-03-13 15:03:08# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Gott er að fá fram þá skýrslu sem hæstv. ráðherra var að greina frá um áætlun og þörf fyrir þriggja fasa rafmagn út um sveitir landsins, það er gott. Við vissum að vísu að þörfin er brýn. Þetta er stórt vandamál og eitt brýnasta verkefnið til að styrkja og efla atvinnulíf úti um sveitir landsins.

Það sem skortir á og ég vildi heyra um frá hæstv. ráðherra: Er hún eða mun hún innan skamms eða hefur hún þegar unnið tillögur um stóraukið fjármagn og stór skref til þess að bæta úr því? Það eru aðgerðirnar, það eru verkin sem skipta höfuðmáli. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvað hún ætlar að taka stór, öflug, sterk, markviss og góð skref í því að koma þriggja fasa rafmagni á sem flesta bæi og býli í landinu? Það er það sem við viljum fá að heyra.