Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:06:47 (6153)

2002-03-13 15:06:47# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. fyrir að taka þátt í þessari fyrirspurn. Ljóst er að það er dýrt að leggja þriggja fasa rafmagn um alla króka og kima á landinu, enda engin ástæða til þess. Aðalatriðið er að farið sé eftir þeirri forgangsröðun sem komin er núna og unnið sé að því að þetta verði gert og komist í framkvæmd.

Ég hef líka orðið vör við það að þeir sem hafa áhuga á að selja rafmagn frá smávirkjunum verða að hafa þriggja fasa línu. Öðruvísi geta þeir ekki nýtt sér það.

Það stendur iðnaðarstarfsemi fyrir þrifum að hafa ekki þriggja fasa rafmagn, það þarf ekki annað en iðnaðarsaumavél til að sauma húðir eða eitthvað þess háttar, þá dugar ekki að vera með einfasa mótora. Fyrir utan það hvað öll tæki eru miklu ódýrari og miklu endingarbetri með alvörurafmagni en ekki tómstundarafmagni eins og sumir vilja kalla einfasa rafmagnið.

Hvert starf sem hægt er að skapa í hinum dreifðu byggðum landsins skiptir afar miklu máli. Því skiptir miklu að fólk sem vill koma upp léttum smáiðnaði fái aðgang að þriggja fasa rafmagni.