Smávirkjanir

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:10:58 (6155)

2002-03-13 15:10:58# 127. lþ. 97.4 fundur 424. mál: #A smávirkjanir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Skýrsla nefndar um raforkubændur, hagkvæmni, tækni og möguleika var gefin út í júní árið 2000. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem var undir forustu hv. þm. Hjálmars Árnasonar.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að virkjun bæjarlækja skapi grundvöll til nýrra sókna í byggðastefnu þjóðarinnar þar sem vistvænn orkugjafi getur orðið grundvöllur þess að mannvit skapi störf og ný sóknarfæri í dreifðum byggðum Íslands.

Þá munu væntanlega breytingar í skipun mála í raforkumálum á Íslandi styðja enn fremur slíkar aðgerðir. Það kemur fram að tæknilega er hægt að virkja bæjarlæki og að slíkur kostur geti verið hagkvæmur fyrir einstaklinginn og byggð. Hugsanlega mætti framleiða 30--50 megavött með smávirkjun og er slíkt umhverfisvænn kostur. Virkjun bæjarlækja kann að styrkja byggð í dreifbýli og auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Árið 1899 voru fyrstu rafljósin kveikt á Íslandi og 1904 var sett upp rafstöð í Hamarskotslæk í Hafnarfirði. 1927--1937 var mikil uppbygging smárafstöðva og flestar einkarafstöðvar urðu 530 talsins en árið 1982 voru þær 186, þar af 88 á bæjum sem ekki höfðu rafmagn annars staðar frá. 1998 eru einkareknar vatnsaflsstöðvar 196 talsins og framleiða 4.038 kílóvött. Að mati starfsmanna Orkustofnunar gætu orðið möguleikar á allt að 60 megavöttum með skynsamlegri nýtingu lítilla vatnsaflsstöðva á Íslandi eða sem nemur um tveimur Nesjavallavirkjunum eins og Nesjavallavirkjun var þá stödd árið 2000 en þar hefur orðið breyting á. Ýmsir áhugamenn um slíkan virkjanakost nefna tölur allt að 100 megavöttum.

Virkjun smárra vatnsfalla felur í sér töluverða orku sem gæti nýst og fyrst og fremst dreifðum byggðum landsins. Orka getur verið afl til góðra verka. Bent hefur verið á að víðast þar sem einstaklingar hafa beislað bæjarlæki sína hefur verið blómstrandi búskapur. Þá eru þess nokkur dæmi að einkarafstöðvar hafa verið nýttar til þess að framleiða rafmagn fyrir minni framleiðslu. Þetta þýðir með öðrum orðum að þar sem aðgangur er að ódýru, vistvænu og hentugu rafmagni skapast grundvöllur fyrir frekari starfsemi. Því vil ég spyrja hæstv. iðnrh. eftirfarandi spurninga:

Hversu margar smávirkjanir hafa tengst kerfi Rafmagnsveitna ríkisins?

Hversu margar smávirkjanir hafa tengst kerfinu síðastliðin þrjú ár?

Hafa þeir aðilar sem óska eftir að koma smávirkjun á fót aðgang að fyrirgreiðslu frá opinberum aðilum? Ef svo er, hvers eðlis er hún?