Smávirkjanir

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:17:52 (6157)

2002-03-13 15:17:52# 127. lþ. 97.4 fundur 424. mál: #A smávirkjanir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Drífu Hjartardóttur fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn. Þarna eigum við gríðarlega virkjunarmöguleika. Nefndar hafa verið tölur upp á 30--50 megavött. En eins og hæstv. iðnrh. kom inn á held ég að í dag sé brýnast að þeim sem hyggja á virkjunarframkvæmdir verði gert kleift að stunda grunnrannsóknir af myndarskap.

Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að leið okkar til að hefja grunnrannsóknir og gera mönnum kleift að standa straum af þeim, í gegnum Orkusjóð, væri e.t.v. besta leiðin í því sambandi. Ég hef löngum talað fyrir nauðsyn þess að efla Orkusjóð þannig að menn geti sótt um framlög þaðan til að stunda grunnrannsóknir. Ég held að við eigum að efla Orkusjóðinn strax til þessara verka vegna þess að vatnamælingar og rannsóknir á hugsanlegum virkjunarsvæðum taka langan tíma. Brýnt er að sú vinna fari í gang sem fyrst.