Smávirkjanir

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:20:31 (6159)

2002-03-13 15:20:31# 127. lþ. 97.4 fundur 424. mál: #A smávirkjanir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um leið og ég bendi á tvö atriði í tengslum við þetta mál.

Í fyrsta lagi, varðandi þriðju spurninguna, er mér ljóst að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur nú þegar mótað reglur um styrkveitingar til þeirra bænda sem hefjast handa um uppsetningu heimilisrafstöðva. Allnokkrir bændur hafa nýtt sér þetta og getað komið sér af stað með framlögum frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

Þá vil ég aðeins koma inn á að orkuverð til bænda sem selja inn á kerfi Rariks er u.þ.b. 2 kr. á kílóvattstund. Hins vegar er rafmagnið selt til bænda á 7 kr. á kílóvattstund. Þar kemur tap af rekstri á línum auðvitað inn í þannig að aðaltekjuöflun bænda liggur í að menn noti orkuna sjálfir en framleiði hana ekki inn á kerfið. Aðalhagnaður manna sem eiga slíkar stöðvar er að nota orkuna sjálfir.