Útibú Matra á Ísafirði

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:34:21 (6165)

2002-03-13 15:34:21# 127. lþ. 97.5 fundur 499. mál: #A útibú Matra á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér væri auðvitað fullt tilefni til þess að hefja þó nokkra umræðu um rannsóknastarfsemi í landinu almennt á vegum ríkisins og stofnana þess en þó sérstaklega um þær áherslur sem hafa á undanförnum árum verið lagðar á það að þessar rannsóknastofnanir skuli standa að störfum sérstaklega varðandi það að afla sértekna, hins svokallaða sjálfsaflafjár. Ég held að ekki væri vanþörf á að skoða ofan í kjölinn hvernig rannsóknastofnanir á vegum ríkisins hafa orðið í sífellt meira mæli að stefna að því að ná sér í svokallað sjálfsaflafé sem hefur að sumu leyti komið niður á rannsóknastarfsemi þeirra. Þessi umræða klárast örugglega ekki við þessari stuttu athugasemd hér. En ég held að þetta sé kannski meginefni máls.