Útibú Matra á Ísafirði

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:37:46 (6167)

2002-03-13 15:37:46# 127. lþ. 97.5 fundur 499. mál: #A útibú Matra á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þm. að anda aðeins rólega því að ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um að loka. Mér fyndist að hann hefði alveg getað metið það einhvers að iðnrn. lagði í fyrsta lagi fram 2 millj. í upphafi til þess að af þessu gæti orðið.

Í öðru lagi var lögð fram 1 millj. nú í lok síðasta árs af rekstrarfé ráðuneytisins til að koma til móts við þessa mikilvægu starfsemi. En eins og hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi þá er það ákvörðun þessa ágæta starfsmanns sem þarna hefur starfað að hverfa til annarra starfa, sennilega vegna þess að hún hefur talið það öruggari starfsvettvang. En ekki hefur verið tekin nein ákvörðun í þessum efnum og það held ég að sé aðalatriðið. Við skulum sjá til hvernig þessum málum lyktar þegar fram líða stundir.

Af því að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson talaði um sjálfsaflafé rannsóknastofnana og að ástæða væri til þess að ræða það sérstaklega, þá er ég alveg sammála honum um það. Eins og fram kom í máli mínu áðan þá fást hvorki meira né minna en þrír fjórðu af því fjármagni sem Iðntæknistofnun hefur til ráðstöfunar með sjálfsaflafé og aðeins einn fjórði af framlögum fjárlaga. Auðvitað er mikilvægt að þessar stofnanir afli fjár sjálfar. Það er nauðsynlegt. En þessi takmörk liggja einhvers staðar og ég óttast að séum við alveg um það bil að fara yfir strikið hvað það varðar að krefjast sjálfsaflafjár af þeim rannsóknastofnunum sem heyra undir iðnrn.