Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:39:49 (6168)

2002-03-13 15:39:49# 127. lþ. 97.6 fundur 536. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land. Hún er efnislega mjög svipuð og fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. forsrh. og var svarað hér í dag og á undanförnum þremur þingum hef ég spurt þann sem hefur farið með byggðamál, hæstv. forsrh. í fyrsta skiptið og síðan núv. hæstv. iðnrh., hvernig gangi að flytja þessi fjarvinnslustörf út á land sem við erum hér oft að ræða.

Auðvitað horfa menn á hvað gert hefur verið. Mér finnst, miðað við skrifleg svör sem ég hef fengið frá öðrum ráðherrum sem ég gat um hér áðan, að nánast ekkert hafi verið gert. Ég vil ekki trúa því að svo hátti til í tilviki ráðuneyti iðnaðar og viðskipta, hjá ráðherra byggðamála, þannig að ég bíð spenntur eftir því að sjá hvað hefur verið flutt.

En auðvitað hafa þau svör sem komið hafa frá öðrum ráðherrum valdið manni og þingheimi miklum vonbrigðum vegna þess að ekkert hefur verið gert. Þetta er auðvitað gert og sagt í framhaldi af þeim miklu væntingum sem byggðar voru upp hér vegna skýrslu um nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni sem taldi 20 síður og líka vegna athugana sem gerðar voru á vegum iðn.- og viðskrn. á úttekt á möguleikum á flutningi einstakra verkefna eða stofnana á vegum iðn.- og viðskrn. til landsbyggðarinnar í nóvember árið 2000. Samtals eru hér 100 síður af mjög mörgum og góðum hugmyndum sem því miður hefur ekki verið hrint í framkvæmd.

Herra forseti. Ég ætla ekki að endurtaka það sem kom fram áðan í umræðu um fyrirspurn til forsrh. en þetta leiddi til þess að menn settu upp fjarvinnslustöðvar og ætluðu sér að fara að vinna í þessum málum. En það hefur gengið frekar brösulega og mörg af þessum fyrirtækjum hafa lent í rekstrarerfiðleikum og hefur það svo verið verkefni Byggðastofnunar að reyna að lagfæra. En enn þá vantar störfin.

Herra forseti. Taka má dæmi um hvað þetta er í raun auðvelt. Förum í smálíkingaleik. Ef hæstv. viðskrh. hringdi í dag í forvera sinn, Finn Ingólfsson seðlabankastjóra, og slæi inn númerið 569 9600 sem er símanúmer Seðlabankans þá yrði svarað þar: ,,Seðlabankinn, góðan dag.`` Hver skyldi þá vera að svara? Jú, það eru tvær stúlkur sem sitja við skiptiborð norður á Raufarhöfn. Þær mundu svara þarna (Gripið fram í: Ekki Finnur?) og gefa samband við seðlabankastjóra. Þetta er ekki flóknara en svo.

Herra forseti. Þess vegna bíð ég spenntur núna þegar síðasta fyrirspurn þessa efnis er rædd hér á hinu háa Alþingi, þ.e. fyrirspurn mín til iðnrh. um hvaða og hversu mörg verkefni hafi verið flutt út á land á síðasta ári.