Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:48:35 (6173)

2002-03-13 15:48:35# 127. lþ. 97.6 fundur 536. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur verið á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka held ég og flestra ríkisstjórna síðustu áratugina að flytja stofnanir út á land. Við höfum hins vegar rekið okkur á að það er afskaplega erfitt að flytja stofnanir í heilu lagi. Það rákum við okkur á þegar Landmælingar fluttu upp á Akranes. Allt ætlaði vitlaust að verða. Það er eins og það sé náttúrulögmál að allt svona þurfi að vera í Reykjavík.

Við rákum okkur á það sama þegar Byggðastofnun var flutt til Sauðárkróks sem manni fannst mjög eðlileg aðgerð vegna þess að starfssvæði Byggðastofnunar er allt landið nema höfuðborgarsvæðið og auðvitað á hún heima úti á landi. Þegar þróunarsviðið flutti eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan fór enginn starfsmannanna með heldur varð að ráða átta nýja starfsmenn. Þegar afgangurinn af starfseminni var fluttur í fyrra flutti aðeins einn maður, að vísu lykilmaður, en alla hina varð að ráða upp á nýtt. Það er mjög erfitt að byrja svona eiginlega upp á nýtt. Sem betur fer er Byggðastofnun að komast yfir þá erfiðleika, fékk mjög hæfan forstjóra og góða starfsmenn og er að ná sér á strik eftir þessa flutninga.

Það er annað sem hefur verið gert á vettvangi Byggðastofnunar, atvinnuþróunarstarfsemin um allt land. Stofnunin veitir verulegt fjármagn í öll kjördæmi til að stofna atvinnuþróunarfélög sem eru á forræði heimamanna. Þar eru þetta 3--5 störf í hverju kjördæmi og þau skipta mjög miklu máli. Áður var þessu öllu stýrt úr hjarta Reykjavíkur. Nú er þetta á forræði heimamanna með öflugum stuðningi Byggðastofnunar.