Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:50:03 (6174)

2002-03-13 15:50:03# 127. lþ. 97.6 fundur 536. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað á að segja um þetta. Það má þó segja eitt. Ég get þakkað hæstv. ráðherra fyrir hreinskilni og það að í hennar stutta svari hafi það komið fram að engin störf í fjarvinnslu voru flutt út á land á árinu 2001 á vegum iðnrn. eða stofnana sem heyra undir það ráðuneyti.

Þá held ég að hringnum sé lokað. Ég held að svör hafi borist frá öllum ráðuneytum um árangur af þessu starfi árið 2001. Hann er jafnlélegur og hann var árið 2000. Ekkert hefur verið gert, því miður. Þetta er ákaflega dapurlegt. Það er dapurlegt að þetta skuli ekki gerast vegna þess að þetta er hægt. Tæknin býður upp á þetta. Það er auðvelt að gera þetta. Það sýna einkafyrirtæki sem hafa slegið til, ekki bara hér heldur úti um allan heim.

Af hverju gerist þetta? Er það vegna þess að stjórnkerfi í Reykjavík stoppar meira að segja ráðherra, jafnvel ráðherra sem hafa einhvern áhuga á því að gera þetta? Er það virkilega svoleiðis? Á maður virkilega að þurfa að sætta sig við að sú sé ástæðan?

Herra forseti. Eins og ég segi var mér skapi næst að koma upp í ræðustól og nánast segja ekki neitt og vera agndofa. En hæstv. ráðherra ræðir í sínu stutta svari um flutning Byggðastofnunar. Það var allt gott og blessað. Við erum ekki að tala um flutning stofnana. Við erum að tala um þennan þátt sem tæknin býður upp á og miklar væntingar voru gerðar til.

Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra þekkir mjög vel þær væntingar sem voru byggðar upp í Ólafsfirði og Hrísey í kringum fjarvinnslufyrirtækin þar og endurreisn sem þar hefur orðið með því að sameina þetta fyrirtæki og stofna fyrirtækið Óley til að taka þátt í verkefninu.

Ég óttast hins vegar, herra forseti, að verkefni vanti fyrir þessar stöðvar og þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að standa sig betur en verið hefur og gera eitthvað í þessum málum vegna þess að sama fyrirspurn kemur fram um leið og þing kemur saman í janúar á næsta ári.