Vöruverð í dreifbýli

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 16:00:41 (6178)

2002-03-13 16:00:41# 127. lþ. 97.7 fundur 517. mál: #A vöruverð í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Karli V. Matthíassyni, fyrir að hreyfa þessu máli. Það er sannarlega rétt að það er mjög ójafn leikur í rekstrarskilyrðum dreifbýlisverslunar gagnvart verslun á höfuðborgarsvæðinu eða stóru stöðunum á landsbyggðinni. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að margar verslunarkeðjur eru með sama vöruverð um allt land, sama hvort það er verslun í Reykjavík, á Akureyri eða Ísafirði. Mér er kunnugt um það og hef átt samtal um það við konu vestur á Ísafirði sem sagði mér að ein besta kjarabót sem hún hefði fengið hafi verið þegar Bónus opnaði verslun sína á Ísafirði. Það er sannarlega rétt.

Það er rétt að segja það hér að ég er nokkuð viss um að sú verslunarkeðja og sá frumkvöðull sem þar var, Jóhannes í Bónus, hefur sennilega gert einna mest í því að keyra niður verðbólgu og lækka vöruverð á þeim stöðum þar sem sú verslun er, en svo er ekki um aðrar og þess vegna er það svo að þetta er ekki alls staðar.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra rétt í lokin: Hvernig gengur nefndarstarfið sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn beittu sér fyrir að skipað yrði um jöfnun flutningskostnaðar, þ.e. þungaskattinn?