Vöruverð í dreifbýli

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 16:01:58 (6179)

2002-03-13 16:01:58# 127. lþ. 97.7 fundur 517. mál: #A vöruverð í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KVM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Það er vissulega gott og ágætt þegar stórar verslunarkeðjur geta verið með starfsemi sína víðar en í Reykjavík eins og á Akureyri og Ísafirði. Ég tek undir það. Það er ágætt að vöruverð er lágt þar. En hins vegar eru fleiri staðir á landinu en þeir og það er það sem ég er að beina sjónum okkar að núna og vekja athygli á. Það eru þær verslanir sem eru á stöðum þar sem búa kannski þúsund manns og færri sem eru að glíma við þennan vanda sem ég var að tala um, herra forseti, að verslunareigendur kaupa vöru af heildsölum á miklum mun hærra verði en eigendur stóru verslananna. Sumir hafa jafnvel velt því upp að í sumum tilvikum geti verið svo að þessar litlu verslanir séu hreinlega að greiða niður verð fyrir þær stóru af því að verðið er keyrt svo mikið niður hjá stóru verslunum að minni verslanirnar verða að borga meira.

Því vakna spurningar um það hvort þetta sé í raun og veru eðlilegt og hvort einokun og áhrif fárra aðila á verslunarmarkaðinn séu ekki orðin það mikil að þau séu farin að skaða litlar verslanir í minni plássum úti á landi. Það er þetta sem maður heyrir kaupmenn sífellt vera að tala um, sem eru að berjast fyrir sínu á landsbyggðinni, hversu mikill munur það er fyrir þá að kaupa vöruna út úr heildsölunum og fyrir hina, þessa stóru, sem geta í krafti valds jafnvel sagt: Ef þið ekki seljið okkur á þessu verði þá kaupum við ekki þessa vöru af ykkur heldur förum annað.