Vöruverð í dreifbýli

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 16:04:07 (6180)

2002-03-13 16:04:07# 127. lþ. 97.7 fundur 517. mál: #A vöruverð í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef áhyggjur af þessu máli alveg eins og þeir hv. þm. sem hér hafa talað. Eins og menn eflaust vita er þetta eitt af því sem verður skoðað í tengslum við nýja byggðaáætlun, þ.e. búsetuskilyrði manna á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið. Það getur örugglega margt athyglisvert komið út úr þeirri athugun.

Eins vil ég nefna að það starf sem unnið hefur verið í þeirri nefnd sem ég nefndi áðan og varðar það að gera athugun á þróun flutningskostnaðar er mjög mikilvægt starf og ég bind vonir við að út úr því komi niðurstöður sem muni hjálpa okkur við að bæta úr hvað þetta varðar. Eins og hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi fara miklar sögur af því að smáverslanir úti á landi eigi bókstaflega í erfiðleikum með að nálgast ákveðnar vörutegundir og það er náttúrlega ekki gott. Ég gæti trúað að í einhverjum tilfellum gæti komið til kasta samkeppnislaga hvað það atriði varðar.

En hef ég áhyggjur af þessu og þó svo að ástand hafi batnað víða vegna þess að þær verslanir sem eru ráðandi á markaðnum hafa verið að færa út starfsemi sína og tekið upp starfsemi víðar en áður var þá hjálpar það að vísu, en það eru líka margir staðir sem búa við hátt vöruverð og vissulega hefur það gríðarleg áhrif á búsetuskilyrði.