Jarðgöng undir Almannaskarð

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:04:25 (6182)

2002-03-13 18:04:25# 127. lþ. 97.8 fundur 485. mál: #A jarðgöng undir Almannaskarð# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir þessa fyrirspurn sem Gunnlaugur Stefánsson lagði fram. Fyrsta spurning hv. þm. var:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að framkvæmdir við jarðgöng undir Almannaskarð verði liður í næstu vegáætlun?``

Svar mitt er að í núverandi vegáætlun eru ósundurliðaðar fjárveitingar í Þvottár- og Hvalsnesskriður og Almannaskarð, 50 millj. kr. árið 2003 og 65 millj. kr. árið 2004. Í jarðgangaáætlun sem samþykkt var á Alþingi árið 2000 er lýsing á hugsanlegum jarðgöngum undir Almannaskarð en þau voru ekki tekin með í röð fyrstu verkefna.

Á næstu vikum stendur fyrir dyrum endurskoðun veg\-áætlunar 2002--2005 og munu framkvæmdakostir við endurbætur leiðarinnar um Almannaskarð þá væntanlega verða teknir til umfjöllunar. En eins og vænta má er í mörg horn að líta þegar tekið er til við vegáætlun, auk þess sem rétt er að minna á að fyrir þinginu liggur frv. um samgönguáætlun sem komið er frá nefnd og er liður í enn betri gerð áætlana um vegaframkvæmdir og aðrar framkvæmdir í samgöngukerfinu.

Í annan stað spyr hv. þm.: ,,Hver er áætlaður kostnaður við slík göng?`` --- Hann er að tala um göng undir Almannaskarð.

Því er til að svara að samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar mundu slík göng kosta um 700 millj. kr.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hvað er áætlað að nýr vegur um Almannaskarð kosti?``

Samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að vegurinn muni kosta um 200 millj. kr. á núverandi verðlagi.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Hefur arðsemi jarðganga undir Almannaskarð verið metin? Ef svo er, hver er niðurstaðan?

Skemmst er frá því að segja að arðsemin hefur ekki verið metin enda, eins og fram kom í svari mínu, var ekki gert ráð fyrir að þessi göng væru í hópi fyrstu verkefna. Því var ekki lögð vinna í að meta arðsemi þeirrar framkvæmdar.