Jarðgöng undir Almannaskarð

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:08:53 (6184)

2002-03-13 18:08:53# 127. lþ. 97.8 fundur 485. mál: #A jarðgöng undir Almannaskarð# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Í þeim kemur m.a. fram að endurskoða eigi, eins og vitað er, vegáætlun á næstu vikum. Það er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki megi vænta þess, í þeirri endurskoðun, að þessi möguleiki verði kannaður gaumgæfilega. Því tengist síðan fjórða spurningin varðandi arðsemina. Má ekki búast við því að könnuð verði arðsemin af þessari framkvæmd við þessa endurskoðun?

Eins og fram kemur í svörum við 2. og 3. spurningu, þ.e. um kostnaðinn, munar um 500 millj. á því að gera nýjan veg um Almannaskarð eða að fara í jarðgöng. Það hlýtur að vera, fyrst munurinn er út af fyrir sig ekki meiri en svo, eðlilegt að kanna gaumgæfilega arðsemina því að augljóslega yrði um miklu varanlegri, öruggari og betri framkvæmd að ræða ef farið væri í jarðgöng þarna. Nýr vegur um Almannaskarð mundi væntanlega verða áfram með töluvert miklum halla og augljóst er að mikið rask yrði við lagningu þess vegar.

Þriðji möguleikinn er auðvitað að gera nýjan veg fyrir hornið sem þá mundi lengja leiðina og yrði þá væntanlega einnig býsna erfið framkvæmd.

Herra forseti. Ég ítreka þakkir til hæstv. samgrh. fyrir svörin og vænti þess að við endurskoðun vegáætlunar verði þessi þáttur skoðaður gaumgæfilega, þ.e. arðsemin af göngunum, og athugað hvort ekki sé eðlilegt að þessi framkvæmd verði sett inn í vegáætlun.