Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:17:19 (6188)

2002-03-13 18:17:19# 127. lþ. 97.10 fundur 500. mál: #A húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör. Það er ánægjulegt að hreyfing er á þessum málum og hæstv. ráðherra hefur vísað þessu máli til hinnar nýju samninganefndar.

Ég velti því fyrir mér hvort hún hafi ekki með breytingu á lögunum möguleika á því að semja við þá sem eru færastir til þess að vinna þetta verk, þ.e. húðflúrarana. Þó það sé e.t.v. erfitt í dag þá veit ég að hugur hæstv. ráðherra stendur til þess að taka á málefnum óhefðbundinna lækninga og kannski mætti segja að hægt væri að túlka þetta verk húðflúraranna við að endurskapa geirvörtu á brjóst á þann veg. Þá er spurning hvort hægt væri að semja beint við þá því að ég hef það beint frá þeim lýtalæknum sem hafa verið að sinna þessum verkum að þeir nái bestum árangri og geri þetta best. Þeir hafa vísað til þess hvernig þetta er gert erlendis þar sem hjúkrunarfræðingar eða snyrtifræðingar hafa gert þetta, en þeir hafa aldrei náð eins góðum árangri og þeir sem starfa við húðflúr reglulega. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um leið og ég fagna svörum hans, hvort hann telji möguleika á því að semja beint við húðflúrarana t.d. eftir að tekið hefur verið á málefnum óhefðbundinna lækninga og hvort sú lagabreyting sem varð á almannatryggingalögunum með samninganefndinni geri það mögulegt að semja við þá eða þá að læknir semji við húðflúrarann þannig að hann vinni verkið þá kannski inni á hans stofu.