Rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:20:42 (6190)

2002-03-13 18:20:42# 127. lþ. 97.11 fundur 515. mál: #A rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er ekkert nýtt að málefni vistheimilisins í Gunnarsholti í Rangárvallasýslu séu tekin upp á Alþingi. Fyrir nokkrum árum var til að mynda umræða um hvort hætta ætti rekstri heimilisins sem þá eins og nú hýsti veika einstaklinga sem erfitt hefur reynst að koma fyrir annars staðar.

Á þeim tíma komu fram öflug mótmæli þess fólks sem vann á Gunnarholti eða dvaldi þar vegna veikinda, en einnig komu mótmæli frá nærliggjandi byggðarlögum eins og forsvarsmönnum Rangárvallahrepps sem álíta starfsemina m.a. mikilvægan hlekk í atvinnulífi héraðsins.

Nú um skeið hafa mál verið, eftir því sem best er vitað, í nokkuð góðum farvegi ef frá er talinn skortur á fjárveitingu til starfseminnar en þó ekki síst til viðhalds bygginga á staðnum. Nú bregður hins vegar svo við undanfarna mánuði að aftur virðist ríkja óvissa og óöryggi í rekstri og starfsumhverfi Gunnarsholts sem hefur bitnað bæði á starfsfólki og þeim sjúklingum sem þar dvelja. Þessi þróun er auðvitað áhyggjuefni og hefur hreppsnefnd Rangárvallahrepps t.d. sent þingmönnum Suðurkjördæmisins ályktun sem lögð var fyrir fund 31. janúar sl. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Undanfarna mánuði hafa borist fregnir af óróa og að því er virðist vandræðum í rekstrinum, m.a. virðist sem starfsmannahald hafi verið einhverjum vandkvæðum bundið. Margir starfsmenn með mislanga starfsreynslu hafa hætt störfum eða eru að hætta. Svo virðist nú sem mjög fáir starfsmenn séu við vistheimilið og sennilega eru aðeins tveir eftir sem hafa fasta búsetu í nágrenni þess í Rangárvallahreppi. Virðist sem því sé ekki sinnt að ráða fólk í stað þeirra sem hætta þó að heimilaður stöðugildafjöldi og fjöldi vistmanna gefi fullt tilefni til þess.

Því hefur verið haldið fram að of fáir starfsmenn séu við vistheimilið nú miðað við fjölda vistmanna, en oft virðast vera aðeins einn til tveir starfsmenn á staðnum að degi til sem ætlað er að hafa umsjón með um það bil 30 vistmönnum. Þessi óheillaþróun virðist hafa byrjað á fyrri hluta síðasta árs og náð hámarki um áramótin þegar aðeins voru eftir fimm til sex starfsmenn sem samkvæmt upplýsingum sem hreppsnefndin hefur fengið eru að hluta aðeins lausráðnir tímabundið.

Hreppsnefnd Rangárvallahrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun mála á vistheimilinu og því að taki rekstur þess ekki skjótum framförum sé hugsanlega teflt í tvísýnu farsælli og góðri starfsemi innan hreppsins til margra ára sem hefur verið mikilvægur hlekkur í atvinnulífi hans til þessa.

Þá skorar hreppsnefndin á yfirstjórn Landspítalans að gera þær úrbætur sem þörf er fyrir og tryggja að rekstur heimilisins komist í eðlilegt horf að nýju.``

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt fyrir þá sjúklinga sem þarna dvelja að búa við öryggi. En það er einnig nauðsynlegt fyrir héraðið að vita hvert stefnir með rekstur Gunnarsholts og hvert hlutverk þessa heimilis verður í framtíðinni. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur verið mótuð framtíðarstefna hvað varðar rekstur vistheimilisins í Gunnarsholti? Ef svo er, hvað felst í henni? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að það verði gert?