Rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:29:44 (6194)

2002-03-13 18:29:44# 127. lþ. 97.11 fundur 515. mál: #A rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna því alveg sérstaklega að hann segir að ekki standi til að fækka plássum eða draga úr starfseminni eins og er. Samt sem áður eru uppi hugmyndir, hugsanlega, um að sameina þessa starfsemi annarri svipaðri. Þær hugmyndir hafa auðvitað kviknað áður og það hefur þá í flestum tilvikum þýtt að starfsemin yrði flutt af staðnum.

Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um að breyta starfseminni þarna, þ.e. vera meira í samstarfi við yfirvöld skólamála og heilbrigðismála á Hellu og reka þarna annars konar meðferðarstarfsemi en nú. Ég efast ekkert um starfsemina hvað varðar endurhæfingu þeirra sem þarna dvelja, þessara einstaklinga sem hefur hingað til verið erfitt að fá vistun fyrir annars staðar. Hún hefur mjög mikið að segja. Einnig það að þeir taka þátt í daglegu lífi, er kennt að takast á við lífið og útskrifast að lokum, en á árum áður var kannski ekki eins algengt að menn færu frá Gunnarsholti heldur komu þeir þangað fyrir fullt og fast og litu á það sem sitt heimili.

Mín skoðun er sú að þarna sé samt sem áður hægt að þróa þessa starfsemi frekar án mikils aukatilkostnaðar. En það verður þá að gerast í samstarfi við heilbrigðis- og skólayfirvöld á Hellu og hugsanlega Sjúkrahús Suðurlands sem þarna gæti komið að málum og eins á Sogni. Ég veit að hugmyndir þess efnis hafa lauslega verið ræddar og ég mundi vilja beina því til hæstv. ráðherra að hann beitti sér fyrir því að af stað færu raunverulegar viðræður bæði við Sjúkrahús Suðurlands og yfirvöld á Hellu til þess að skoða hvort ekki megi tryggja starfsemina til framtíðar og móta um hana mjög skýra stefnu.