Rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:31:54 (6195)

2002-03-13 18:31:54# 127. lþ. 97.11 fundur 515. mál: #A rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég gat um það að endanleg ákvörðun hefði ekki verið tekin og rætt hefði verið um samstarf. Sú umræða þarf ekki að þýða að flytja eigi þessa starfsemi af staðnum. Ég hef ekki lagt það til. Í mínum huga kæmi það mjög til greina að leita viðræðna við heimaaðila hvort hægt væri að þróa þessa starfsemi eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir tók til orða í samstarfi við aðila sem vinna á hliðstæðum sviðum í héraði. Ég er alveg opinn fyrir slíkum viðræðum og ég held að ég megi fullyrða það að forsvarsmenn Landspítala -- háskólasjúkrahúss eru það einnig þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að leita leiða, hvort möguleikar eru í þessu efni í samstarfi við þær stofnanir í héraðinu sem annast heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu á einhverju sviði. Ég mun kanna hvaða möguleikar eru í því efni.