Framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:46:44 (6203)

2002-03-13 18:46:44# 127. lþ. 97.12 fundur 530. mál: #A framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég get vottað það að ég er þess alveg meðvitaður að þetta er forgangsverkefni þingmanna Sunnlendinga og hef rækilega orðið var við það á þeim mánuðum sem ég hef verið heilbrrh. Ég hef verið áfram um að koma þessu máli af stað eða halda áfram þar sem þetta mál var í miðjum klíðum eins og kom fram í svari mínu. Ég mun kappkosta að haldið verði áfram af fullum krafti. Ég hef skoðað Ljósheima og ég geri mér alveg grein fyrir hvernig ástandið er þar. Það er auðvitað forgangsmál að koma þeirri byggingu áfram og ég er þess fullviss að Framkvæmdasjóður aldraðra tekur þátt í því verkefni. Auðvitað höfum við rætt það mál innan ráðuneytisins en nú er aðalatriðið að horfa til framtíðarinnar þannig að þetta verkefni geti gengið vel og snurðulaust fyrir sig og útboð farið fram þegar hönnun er tilbúin og menn geti gert trúverðuga verkáætlun um framkvæmd verksins. Ég er reiðubúinn að leggja mitt af mörkum til þess. Þetta er eitt af þeim byggingarmálum sem hafa verið ofarlega á baugi hjá okkur í heilbrrn. og þingmenn Suðurlands hafa reyndar verið óþreytandi að minna á þetta mál og hafa haldið okkur rækilega við efnið í þessu og ég er fús að votta það.