Skipting stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:48:56 (6204)

2002-03-13 18:48:56# 127. lþ. 97.13 fundur 531. mál: #A skipting stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, er í 1. mgr. 18. gr. og 3. mgr. 34. gr. kveðið á um að sveitarfélögum beri að greiða 15% af stofnkostnaði við heilsugæslustöðvar og sjúkrahús. Jafnframt skulu þau greiða 15% af meiri háttar viðhaldskostnaði og tækjakaupum. Heilbrrh. var, þegar lögin voru sett 1990, ætlað að setja í reglugerð nánari útfærslu á því hvað telst til meiri háttar viðhalds. Það hefur hins vegar ekki verið gert og virðist að mati sveitarfélaganna alls ekki ljóst hvar skyldur þeirra liggja þar sem um mismunandi einhliða túlkun ráðuneytis er að ræða á því hvað telst til meiri háttar viðhalds.

Ríkisendurskoðun hefur einnig í skýrslu vakið athygli á því að ekki sé fullt samræmi á milli heilbrigðisstofnana hvernig staðið er að innheimtunni og hvað er innheimt hjá sveitarfélögunum og því sé nauðsynlegt að setja reglur um hvað telst til meiri háttar viðhalds.

Eftir að samningur var gerður við Reykjavíkurborg 1998 um verkaskiptingu varðandi rekstur sjúkrahúsanna í höfuðborginni, þar sem borgin er losuð undan þátttöku vegna viðhalds og stofnkostnaðar auk þess að fá endurgreitt vegna nýframkvæmda og viðhaldskostnaðar á Landakoti vegna áranna 1995--1998, hafa í auknum mæli komið upp ágreiningsmál milli sveitarfélaga og ríkis vegna illa skilgreindrar kostnaðarþátttöku sem sveitarfélögum er ætlað að bera vegna meiri háttar viðhalds.

Í svari við fyrirspurn sem ég bar upp fyrir um ári sagði þáv. hæstv. heilbrrh. að verið væri að skoða kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga hvað varðaði þessi verkefni og önnur og vænti hún þess að niðurstaða lægi fyrir í september sl. haust. Enn hafa þó engar tillögur verið lagðar fram á Alþingi. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Eru fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu hvað varðar skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á stofnkostnaði og kostnaði við meiri háttar viðhald heilbrigðisstofnana? Ef svo er, hvenær er þeirra að vænta?