Skipting stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:51:03 (6205)

2002-03-13 18:51:03# 127. lþ. 97.13 fundur 531. mál: #A skipting stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:51]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Núgildandi fyrirkomulag varðandi skiptingu stofnkostnaðar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva milli ríkis og sveitarfélaga byggir á ákvæðum laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum greiðir ríkissjóður 85% af kostnaði við nýframkvæmdir, meiri háttar viðhald og tækjakaup heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa en sveitarfélögin 15%. Ríkissjóður greiðir þennan kostnað hins vegar að fullu gagnvart Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

Hugmyndir um breytingar á núverandi reglum varðandi kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga hafa oft komið upp á undanförnum árum. Rekstur þessara stofnana er fjármagnaður með framlögum ríkissjóðs og sértekjum. Sveitarfélög taka engan þátt í rekstrarkostnaði þeirra. Sveitarfélög tilnefna hins vegar þrjá aðila í stjórn hverrar stofnunar og greiða 15% af kostnaði við nýframkvæmdir, meiri háttar viðhald og tækjakaup eins og fram kom. Þar með eru sveitarfélög þátttakendur í ákvörðunum um framkvæmdir og viðhald og taka þátt í kostnaði vegna þessa. Þrátt fyrir að færa megi rök fyrir bæði meiri og minni þátttöku sveitarfélaga í slíkum kostnaði verður því vart á móti mælt að 15% framlag er orðið svo lítið að spurning er hvort taki því að viðhalda slíkri skiptingu.

Síðustu árin hefur komið fram vilji ráðuneyta og sveitarfélaga til að fella niður þátttöku sveitarfélaga í þeim kostnaði en í staðinn taki sveitarfélög að sér önnur verkefni.

Í janúar 2001 skipaði félmrh. nefnd til þess að yfirfara verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar sem félmrh. skipaði í júní 1999. Nefndin skilaði áfangaskýrslu í nóvember sl. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Samkvæmt upplýsingum frá bókhaldi ríkisins er árlegur kostnaður sveitarfélaganna um 100 millj. kr. sem tengist öðrum stofnunum en Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, áður Ríkisspítölum. Misjafnt er með þátttöku sveitarfélaga í þessum kostnaði. Aðeins um helmingur sveitarfélaganna ber reglulegan kostnað vegna þessa lagaákvæðis samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélögum.

Tillögur nefndarinnar eru þær helstar:

Að sveitarfélögin verða alfarið leyst undan þessu verkefni og kostnaðarbyrðin flutt til ríkisins.

Að ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990, um skipun í stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, verði endurskoðuð í því ljósi að verkefnið verði alfarið á einni hendi, þ.e. stjórnunin verði alfarið ríkisins.

Að hlutdeild sveitarfélaga í fasteignum sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana verði afskrifuð sem hraðast.

Að samið verði um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig mætt verði þeim kostnaði sem flyst frá sveitarfélögum til ríkisins.

Að mati nefndarinnar kemur til álita að verkefnið verði flutt frá ríkinu til sveitarfélaganna til að mæta hluta af umræddum kostnaði. Nefndin setti hins vegar ekki fram ákveðnar hugmyndir um hvaða verkefni yrðu flutt af þessu tilefni til sveitarfélaga. Fulltrúar ríkisins í nefndinni bentu á ýmis verkefni sem að þeirra mati kæmu til greina en þær hugmyndir hafa ekki verið skoðaðar af nefndinni. Dæmi um slíkt verkefni í heilbrigðisþjónustu eru sjúkraflutningar á landi, þar með talið sjúkrabifreiðar, sjúkraflutningamenn og annar rekstur því tengdur. Þessari þjónustu er nú sinnt af heilbrigðisstofnunum og er árlegur kostnaður við hana um 350 millj. kr.

Herra forseti. Mín skoðun er að breytingar á verkaskiptingu í samræmi við framangreindar tillögur verði að grundvallast á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um þessi mál. Samkomulag þarf að nást um hvernig þeim kostnaði sem flyst frá sveitarfélögum til ríkis vegna þessara breytinga verði mætt. Það er því ekki hægt að segja um það á þessu stigi málsins hvenær þær breytingar koma til framkvæmda.