Aðstaða til fjarnáms

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 19:03:59 (6210)

2002-03-13 19:03:59# 127. lþ. 97.14 fundur 516. mál: #A aðstaða til fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[19:03]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa ágætu spurningu og hæstv. nýskipuðum menntmrh. fyrir svar hans. Ég veit og treysti því að hæstv. menntmrh. sé afar vel að sér í menntamálum þjóðarinnar og geri sér glögga grein fyrir sérstöðu Vestmannaeyja í þessum efnum og hve miklu máli skiptir að fólk geti lært í heimabyggð.

Ég var nýverið með viðtalstíma í Vestmannaeyjum. Þá kom einmitt þetta sama góða fólk til mín í viðtal. Þá voru þær reyndar níu en þegar við fengum bréfið skömmu seinna voru þær orðnar 13 sem höfðu áhuga á að stunda fjarnám í gegnum Háskólann á Akureyri, og þetta sýnir í raun áhuga þessa góða fólks á því að geta lært í heimabyggð.

Hér er um að ræða starfsmenn Sjúkrahúss Vestmannaeyja og það skiptir þetta fólk auðvitað mjög miklu máli að geta unnið og lært um leið og þess vegna treysti ég hæstv. menntmrh. til að beita sér af alefli í þessu máli.