Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:33:57 (6216)

2002-03-19 13:33:57# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Enn rís hv. þm. Vinstri grænna upp og mótmælir vinnubrögðum vegna frv. til laga um virkjun við Kárahnjúka og Kröflu. Það er rétt að taka fram, herra forseti, að vinnubrögð hv. iðnn. hafa verið mjög eðlileg. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta frv. og málið sent til umsagnar bæði hv. efh.- og viðskn. og umhvn. Fjölmargir fulltrúar og sérfræðingar á þessu sviði komu til nefndarinnar. Í rauninni var ekkert eftir annað en taka pólitíska ákvörðun.

Þegar hv. þingmenn Vinstri grænna sjá að hér er um afskaplega jákvætt mál að ræða fyrir þjóðarbúið þá er örþrifaráðið að reyna að gera vinnu félaga sinna í iðnn. torkennilega. Ég vísa því algerlega á bug. Ég vil upplýsa hv. þm., þó að hann eigi að vita það, að Alþingi er með þessu einungis að vinna sína heimavinnu. Það er ekki Alþingi sem gefur út starfsleyfið. Rekstrarleyfi til virkjunar er gefið út af framkvæmdarvaldinu. Það er verið að afgreiða slíka heimild til hæstv. iðnrh. sem síðan að uppfylltum þeim skilyrðum sem hv. þm. á að vita að eru uppfyllt mun væntanlega gefa út rekstrarleyfið. Það er eðlilegt í alla staði. En ég lít á þetta sem veikburða tilburði hv. fulltrúa Vinstri grænna í iðnn. til þess að drepa málinu á dreif með þessum hætti.