Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:41:23 (6220)

2002-03-19 13:41:23# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Því miður liggur ekki fyrir rammaáætlun. Þó það væri ekki nema af þeim ástæðum þá þarf að taka afstöðu til þess hvort virkjað verði á þessu svæði. Það er mín skoðun að menn muni ekki neita sér um það í framtíðinni að virkja þær ár sem þarna eru. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að leggjast gegn því að tekin verði ákvörðun um að það verði virkjað á þessu svæði.

Ég sé ástæðu til þess að velta því fyrir mér hvernig á því standi að íslensk stjórnvöld skuli ekki vera í betra sambandi við þessa aðila sem meiningin hefur verið fram að þessu að ætluðu að taka þátt í því að byggja þarna álver, að ekki skuli vera hægt að svara því hér uppi á Íslandi þegar slík umræða kemur til sem hefur verið síðustu dagana um að menn ætli að hætta við þetta. Þá mætir hæstv. iðnrh. í fjölmiðla undir spurningarmerki og getur engu svarað. Hvernig eiga menn að meta þetta? Að mínu viti er ekki hægt að meta þetta nema á einn hátt. Ástæða er til að ætla að Norsk Hydro hafi ekki og hafi aldrei fullkomlega í ákvörðunarferli sínu gert ráð fyrir því að bæði þessi stórkostlegu fjárfestingarfyrirtæki sem þarna eru á ferðinni gengju fram. Og þegar fyrir lá að fjárfestingin í Þýskalandi gengi fram voru menn ekki lengur tilbúnir til þess að svara því fyrir fullt og fast að þeir ætluðu í hina fjárfestinguna. Við höfum kannski verið býsna bláeyg hér uppi á Íslandi að halda að þetta skipti engu máli fyrir svona fyrirtæki eins og Norsk Hydro, að halda að þeir hefðu nóga peninga til þess að halda áfram og þyrftu ekki einu sinni að hugsa sig um eftir að búið væri að fara í fjárfestingu eins og þessa í Þýskalandi. En ýmislegt virðist benda til þess að svo sé ekki og að menn sitji uppi með það hér að geta fengið tilmæli frá Norsk Hydro um það hvert ... Það er ömurlegt að sjá íslensk stjórnvöld í þeirri stöðu að geta engu svarað þegar um er að ræða þetta stórkostlega mál sem hér er á ferðinni.