Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:53:12 (6227)

2002-03-19 13:53:12# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það má nokkuð ljóst vera að hv. þingmenn Vinstri grænna eru á móti álversframkvæmdum fyrir austan og tilheyrandi virkjun. Það liggur alveg fyrir. Framan af í þeirri umræðu lögðu þeir áherslu á umhverfisþáttinn með sínum kunnu dramatísku lýsingum. Eftir að málið hafði farið lögum samkvæmt í mat á umhverfisáhrifum, lagðar meiri rannsóknir í þetta verkefni en nokkurt annað verkefni í sögu íslensku þjóðarinnar og búið að draga úr umhverfisþættinum eins og mögulegt er án þess þó að skaða verkefnið í heild sinni, þá hvarf skyndilega græni liturinn frá Vinstri grænum og eftir stóð aðeins sá rauði sem eftir því sem hæstv. forseti þingsins hefur upplýst fer þó fölnandi.

Þá var næst ráðist á arðsemina og hún gerð tortryggileg. Þegar fram hefur komið frá færustu sérfræðingum, hlutlausum aðilum að hér er um að ræða eitt arðsamasta verkefni sem í hefur verið ráðist og mun skila miklum verðmætum inn í íslenskt efnahagslíf, þá viku þeir sér frá þeim þætti og stóð þá fátt eftir annað en vinnubrögðin. Nú skyldu vinnubrögðin við þetta gerð tortryggileg.

Hér hefur því verið haldið fram af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að einstakir þingmenn hafi verið þvingaðir í þessum málum þrátt fyrir það að þeir hafi komið hér upp og lýst vinnunni, þá er aðeins einn þingmaður sem telur sig þvingaðan í þessu máli og það er hv. málshefjandi.

Staðan er mjög einföld. Það er Alþingi sem afgreiðir málið lögum samkvæmt til hæstv. iðnrh. Það er iðnrh. sem gefur út virkjunarleyfið. Það hefur verið staðfest að tíminn sem Norsk Hydro hefur er til 1. september og það liggur engin formleg yfirlýsing frá Norsk Hydro um annað. Að því leytinu til er málið í eðlilegum farvegi. Það er líka alveg kristaltært að Vinstri grænir eru á móti verkefninu og færa þau mótmæli sín í ýmsan búning og það er í sjálfu sér ágætt.