Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:56:23 (6229)

2002-03-19 13:56:23# 127. lþ. 99.1 fundur 565. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu# þál. 6/127, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. utanrmn. um till. til þál. um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Króatíu sem undirritaður var í Vaduz 21. júní 2001.

Fríverslunarsamningur þessi er gerður í framhaldi af samstarfsyfirlýsingu EFTA-ríkjanna og Króatíu sem undirrituð var í Zürich 19. júní 2000 og er hluti af viðleitni EFTA-ríkjanna til að styðja við lýðræðislega þróun og efnahagslegar framfarir í Króatíu og á Balkanskaga í heild.

Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Utanrmn. er einróma í afstöðu sinni til málsins.