Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:57:37 (6230)

2002-03-19 13:57:37# 127. lþ. 99.1 fundur 565. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu# þál. 6/127, RG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð formanns utanrmn. Það er einhugur um þessa tillögu og þær aðrar um fullgildingu fríverslunarsamninga sem eru á dagskrá þingsins. Það eru ein þrjú slík mál á dagskrá í dag. Við höfum unnið við þessa fríverslunarsamninga í utanrmn. og farið yfir þá og þetta er mjög í anda annarra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert.

Eins og ég sagði við 1. umr. málsins styður Samfylkingin gerð fríverslunarsamninga. Ég tek það sérstaklega fram af því að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins að báðir fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn. styðja að sjálfsögðu þetta mál.

Herra forseti. Af því að ég sé ekki ástæðu til þess að koma hér og taka þátt í neinni umræðu um önnur nál. vegna fríverslunarsamninga sem formaður utanrmn. mun mæla fyrir, þá vil ég kannski fyrst og fremst vekja athygli á fríverslunarsamningi við Jórdaníu vegna þess að þarna erum við að sýna ákveðna viðleitni varðandi viðskiptatengsl landa norðausturstrandar Miðjarðarhafsins og Mið-Austurlanda við Evrópu og er mjög mikilvægt að haldið verði áfram því starfi sem hafið er. Ég lýsi stuðningi mínum og flokksins við þau mál sem hér eru til umræðu.