Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 14:41:45 (6236)

2002-03-19 14:41:45# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í raun ekki samgönguáætlunina sem slíka eða neina tillögu um hana heldur þann ramma sem löggjafinn ætlar að setja utan um slíka áætlun eða slíkar áætlanir þegar þær verða lagðar fram, því þeim verður skipt í tvennt. Annars vegar verður um að ræða áætlun sem gerð verður til fjögurra ára og hins vegar áætlun til 12 ára sem verður lögð fyrir þingið, ef þetta frv. verður að lögum.

Virðulegi forseti. Almennt vil ég segja um þetta fyrir hönd okkar þingmanna Samfylkingarinnar að við styðjum þá meginhugmynd sem hér er lagt upp með. Við teljum að það geti skipt miklu við nýtingu fjármuna að horfa á þessar áætlanir heildstætt, þ.e. á samgöngur í lofti, á láði og legi. Ég held að það skipti miklu máli.

Hins vegar höfum við gert athugasemdir við nokkur atriði í þessari samgönguáætlun eða þeim ramma sem ætlað er að gilda um þessa samgönguáætlun, því hér er ekki um það að ræða að verið sé að leggja fram neina samgönguáætlun sem slíka, heldur aðeins lagarammann sem gilda á um slíka áætlun þegar og ef hún verður lögð fram.

Við höfum einkanlega gert athugasemdir í samgn. við 3. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir því að samgönguráð verði skipað af flugmálastjóra, siglingamálastjóra og vegamálastjóra. Samgönguráði er ætlað talsvert hlutverk við gerð nýrrar samgönguáætlunar. Það skal m.a. standa að samgönguþingi, veita ráðgjöf, leiðbeiningar o.s.frv.

Virðulegur forseti. Við höfum gert fyrirvara við afgreiðslu þessa máls. Þó að við komum til með að styðja það gerum við athugasemdir við að í 3. gr. skuli einvörðungu gert ráð fyrir embættismönnum við mótun samgönguáætlunar, eða að þeir hafi a.m.k. veigamikil áhrif á hana. Við höfum talið eðlilegra að kjörnir stjórnmálamenn eða pólitíkusar, ef svo má að orði komast, móti hugmyndir um þessa hluti inn í framtíðina. Það er okkar skoðun að það sé hlutverk stjórnmálamanna að gera slíkar áætlanir er horfa til langs tíma, en þá kannski frekar hlutverk embættismanna að vera þeim til halds og trausts og vinna þau verk sem ákveðin eru. Við erum ekki að varpa nokkurri rýrð á þá embættismenn sem gegna þessu starfi nú eða koma til með að gegna því í framtíðinni. Ekkert slíkt liggur hér undir. Við teljum hins vegar eðlilegra að stjórnmálamenn komi meira að þessari framtíðarmótun. Það er hlutverk þeirra að okkar mati. Ég geri fastlega ráð fyrir því að stjórnarandstaðan muni við 3. umr. reyna að sameinast um hugmyndir um breytingu á þessari grein og muni láta á það reyna við 3. umr. hvort menn geti þá náð einhverju samkomulagi eða sátt um að breyta þessu að einhverju ráði.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti vil ég segja að ég held að hér sé skynsamlegt upplegg á ferðinni. Það er skynsamlegt að leggja þetta upp á þann hátt að reyna að samræma samgöngur í lofti, láði og legi. Það er skynsamlegt að gera áætlanir til bæði fjögurra ára og tólf ára. Almennt séð erum við því þessu fylgjandi þó við að sjálfsögðu hefðum gert þetta með einhverjum öðrum hætti hefði þunginn hvílt á okkur að meginstefnu til. En vonandi fer nú að styttast í það.