Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:17:00 (6238)

2002-03-19 15:17:00# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Já, staða samgöngumála í landinu og samgönguáætlun eru áhugaverðir þættir sem útheimta yfirgripsmikla skoðun þingmanna og ég get að því leyti tekið undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem saknar hæstv. samgrh. úr salnum, og reyndar væri ágætt að geta átt skoðanaskipti við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, formann samgn.

(Forseti (GuðjG): Formaður samgn. er í veikindafríi í dag og hæstv. samgrh. er í húsinu.)

Þá treystum við því í það minnsta, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra sé að leggja eyru við og komi til umræðunnar þegar líður á hana.

Ég verð að segja að ég lýsti ánægju minni með megintilgang þessa frv. við 1. umr. málsins þótt ég hefði uppi nokkuð mörg gagnrýnisatriði, og ég get þar af leiðandi tekið undir vonbrigði þeirra þingmanna sem hér hafa tjáð sig, vonbrigði með nál. meiri hlutans. Ég hefði satt að segja talið alveg eðlilegt að meiri hlutinn tæki inn í nál. sitt meira af þeim ábendingum sem komu fram í talsvert langri og öflugri umræðu við 1. umr. málsins.

Með þessu frv. er lagt til að algjörlega nýr og breyttur lagarammi um gerð samgönguáætlana verði samþykktur. Í 2. gr. frv. er mælt fyrir um tvenns konar áætlanir, annars vegar fjögurra ára áætlanir og hins vegar 12 ára áætlun. Ég verð að segja, herra forseti, að eftir því sem ég skoða málið betur sé ég hvað þessi 2. gr. er ótrúlega klúðursleg og í sjálfu sér undarlegt að samgöngunefnd skyldi ekki hafa gert tillögu um orðalagsbreytingar þar því þar er grautað saman, að því er manni finnst, fjögurra ára áætluninni sem á að endurskoða á tveggja ára fresti og 12 ára áætluninni sem endurskoða á á fjögurra ára fresti. Ég verð því að segja að verklag það sem lýst er í 2. gr. frv. er afar óljóst að mínu mati, herra forseti, og hefði sannarlega verið þörf á að skýra það betur þannig að segja megi að greinin sé gegnsæ og fólk átti sig á því við hvað er átt.

Í annan stað vil ég gagnrýna að á þessu mikla vægi fjáröflunar og útgjalda og hinna hagrænu þátta hefur ekki orðið nein breyting í meðförum nefndarinnar. Mér finnst algerlega sjálfsagt að ef við ætlum að hafa hina hagrænu þætti hér í þessum lagatexta á annað borð ættum við sömuleiðis að hafa aðra mikilvæga þætti með sem ber að hafa í huga við gerð samgönguáætlunar. Þá á ég að sjálfsögðu við umhverfisþættina og félagslegu þættina sem lúta t.d. að fjölskyldustefnu og stefnu um sjálfbærar samgöngur sem rædd hefur verið hér og ég nefndi í máli mínu við 1. umr. Þá fjallaði ég á ítarlegan hátt um gönguleiðir og reiðstíga og það í hvaða formi hvatning frá stjórnvöldum gæti orðið til þjóðarinnar um að nýta sér þær samgöngur sem ekki krefja okkur um brennslu jarðefnaeldsneytis.

Sömuleiðis, herra forseti, má gagnrýna það að fjarskiptin skuli í raun og veru hvergi koma við sögu. Eðli máls samkvæmt og í ýmsum textum sem hæstv. ríkisstjórn hefur látið frá sér fara má ætla að fjarskiptamál og gagnaflutningamál séu skilgreind sem hluti af samgöngukerfum okkar enda eru þau vistuð hjá hæstv. samgrh. Það má gagnrýna að ekki skuli vera gerð nein grein fyrir þeim þáttum í þessu nál. frá meiri hluta samgn.

Í frv. kemur í ljós og hefur verið fjallað um það hér, herra forseti, að þessi 12 ára samgönguáætlun eigi að vera mun víðtækari en fyrri áætlanir á sviði samgöngumála. Þar af leiðandi hefði manni fundist eðlilegt að orðalagið í lagatextanum hefði gefið það betur til kynna en raun ber vitni. Og þó að það segi í nál. meiri hlutans að ætlunin sé að hún taki jafnframt til öryggismála, umhverfismála, almenningssamgangna og fjármögnunar samgöngukerfisins hefði mér fundist eðlilegt að nefndin legði til að þessum málaflokkum yrði gert það hátt undir höfði að þeir fengju að fljóta með inn í lagatextann.

Þá vil ég gera, herra forseti, að umræðuefni hugmyndir frv. um samgönguráð og samgönguþing. Nú er ekki langt síðan, herra forseti, að gerðar voru breytingar á lögum um náttúruvernd. Eins og hv. þm. muna var náttúruverndarráð lagt niður, fagskipað ráð sem var ætlað að vera umhvrh. til faglegrar leiðsagnar í málefnum náttúruverndar. Hæstv. umhvrh. hafði fyrir því rök að þetta ráð, náttúruverndarráð og náttúruverndarþing nýttist ekki sem skyldi og hún vildi koma hinni faglegu ráðleggingu í annað form. Þar með var lögfest ákvæði í náttúruverndarlögin um umhverfisþing. Til að rifja upp fyrir hv. þingmönnum hvernig umhverfisþingi var gert að vinna taldi umhvn. það eiga að geta verið í sínum verkahring að setja umhverfisþingi ákveðnar starfsreglur, ákveðið form til að það væri alveg ljóst hvernig umhverfisþing nýttist sem leiðsögn fyrir stjórnvöld í málefnum umhverfisins og náttúruverndarinnar.

Á þessi sjónarmið umhvn. var fallist í þingsal þannig að umhvn. lítur á það sem verkefni sitt, og á eftir að taka á því áður en þetta þing er úti, að setja umhverfisþingi reglur og starfsramma til að þingið nýtist til hins ýtrasta.

Hér sýnist mér, herra forseti, að við föllum í þá gryfju að setja fyrirmæli í lög um samgönguþing sem eigi að halda minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar sem er þá trúlega minnst einu sinni á 12 ára fresti. Ég spyr mig, herra forseti: Er það nægilega oft? Þessu þingi er ætlað að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunarinnar, þeirrar stóru eftir því sem maður les í þennan texta, hinnar 12 ára áætlunar, og að til þessa samgönguþings skuli boðið öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála. algerlega án þess að nokkuð nánar sé skilgreint hverjir þessir helstu hagsmunaaðilar samgöngumála séu.

Nú hefði alveg verið eðlilegt í ljósi þess sem rætt var um umhverfisþing að samgn. hefði tekið þetta mál til sérstakrar skoðunar og ákveðið fyrir sig hvernig hún mundi vilja sjá væntanleg samgönguþing. Hún hefði þá líka getað tekið það á sig að gera einhvers konar regluramma samgönguþingsins til að tryggja að hagsmunaaðilar, t.d. fjölskyldnanna í landinu, félagasamtaka og annarra þeirra sem láta sig málefni samgangna í landinu skipta, ættu þarna öfluga aðild og aðkomu. Það er algerlega óásættanlegt, herra forseti, að hér séum við að setja lög um eitthvert samgönguþing og við vitum ekkert hver starfsrammi þess verður eða hvernig því verður gert kleift að starfa eða ná til þeirra hagsmunaaðila sem vilja tjá sig um málin.

Í þessu sambandi, herra forseti, langar mig til að vitna í umsögn Náttúruverndar ríkisins um frv. þetta sem birt er í fylgiskjali með nál. minni hluta samgn. á þskj. 967, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Náttúruvernd ríkisins telur rétt að skilgreina betur hvað átt er við með hagsmunaaðilum í þessu sambandi. Rétt er að benda á að Náttúruvernd ríkisins er leyfisveitandi fyrir framkvæmdum á friðlýstum svæðum og umsagnaraðili um framkvæmdir sem spillt geta svæðum á náttúruminjaskrá. Telur stofnunin því eðlilegt að við gerð samgönguáætlunar verði haft samráð við stofnunina ef fyrirhugaðar eru framkvæmdir sem varða slík svæði.``

Herra forseti. Það er í sjálfu sér gagnrýnivert að í frv. til laga um samgönguáætlun skuli Náttúruverndar ríkisins í engu getið. Ég held að umsögnin frá Náttúruverndinni styðji þau sjónarmið sem ég hef nú reifað varðandi samgönguþing.

Síðan má taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um samgönguráðið sem gerð er grein fyrir í 3. gr. og hv. þm. kallaði brandara. Það er í sjálfu sér alveg eðlilegt að við krefjumst svara frá hæstv. samgrh. um hvað hann sér hér fyrir sér. Er hann að búa til þetta ráð með þessum þremur embættismönnum sem hér er getið? Sér hann það fyrir sér sem stjórnskipað ráð með þóknun á borð við þá þóknun sem Landssíminn hefur ákveðið fyrir sína stjórnarmenn eða erum við að tala um ráð sem er á svipuðum launum og bankaráðin hafa? Erum við kannski að tala um sjálfsagða embættisskyldu manna sem þegar hafa með höndum þessi málefni, að fylgjast með samgöngumálum og koma að stefnumótuninni eftir því sem samgrh. ákveður? Ég tel í hæsta máta eðlilegt að við fáum við þessa 2. umr. svör við þessum spurningum okkar.

Af því að ég, herra forseti, gerði hér að umtalsefni umsögn Náttúruverndar ríkisins um frv. þetta er tilefni til að geta þess að hún vekur athygli á því að margir ferðamannavegir liggja um friðlýst svæði og það er algerlega nauðsynlegt að við uppbyggingu vega á þessum svæðum sé tekið mið af gildandi friðlýsingum, og það hlýtur að liggja í hlutarins eðli þótt það sé hvergi sagt að slíkt verði gert. Enn einu sinni er bent á það hversu rýr þessi lagatexti er og í raun og veru greinargerðin með honum líka, að þessa þáttar skuli hvergi getið.

Það er algerlega nauðsynlegt, herra forseti, að tillit sé tekið til framkvæmda á svæðum á náttúruminjaskrá við gerð samgönguáætlunar og algerlega nauðsynlegt að Náttúruvernd ríkisins sé hinn opinberi leiðsagnaraðili í þeim efnum.

(Forseti (GuðjG): Forseti spyr hvort hv. þingmaður muni ljúka ræðu sinni á næstu mínútum eða hvort hún vilji fresta flutningi hennar meðan fram fer umræða utan dagskrár.)

Já, ég held, herra forseti, að ég þiggi að fá að fresta seinni hluta ræðu minnar þar til eftir utandagskrárumræðu þá sem hér fer fram.