Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:47:28 (6244)

2002-03-19 15:47:28# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Landssími Íslands hefur staðið í miðpunkti hatrammrar umræðu um hlutafjárvæðingu, misheppnaða einkavæðingu, einokunartilburði, yfirgnæfandi markaðsstöðu og hraðar breytingar í fjarskiptum. Fyrirtækið á viðskipti við nánast alla landsmenn og þjónusta þess skiptir miklu máli. Starfsmenn eru yfir 1.300. Hér á hinu háa Alþingi eru aftur og aftur umræður um þetta fyrirtæki. Þessi umræða öll hefur virkað illa á starfsfólk Landssímans sem hefur þurft að axla miklar breytingar á starfsumhverfi sínu og hefur á sama tíma skilað frábærum árangri við rekstur fyrirtækisins. Virðist sem ákveðinn trúnaðarbrestur sé á milli starfsmanna annars vegar og yfirstjórnar hins vegar. Þessi umræða hefur líka virkað illa á viðskiptamenn Landssímans, veikt stöðu hans á markaði og rýrt verðgildi hans. Hafa fá önnur fyrirtæki lent í öðrum eins hremmingum.

Herra forseti. Hlutverk stjórnar fyrirtækisins er að setja forstjóra og starfsfólki markmið til að keppa að. Vegna þeirra hremminga sem ég lýsti áðan taldi ég mjög mikilvægt að fá í stjórn Landssímans besta og hæfasta fólk sem völ er á, fólk með reynslu og þekkingu á rekstri stórfyrirtækis, reynslu í erlendum samskiptum, fólk sem hefur reynslu af að virkja starfsfólk og koma upp góðum starfsanda. Til þess að hæfasta fólkið fáist þarf að greiða vel fyrir störfin. Fólk sem hefur komið sér vel fyrir þarf sérstaka umbun til að taka þátt í þessu erfiða verkefni við þessar erfiðu aðstæður og fórna til þess frítíma sínum og orku. Þau laun sem þetta fjaðrafok hefur orðið um voru alls 4,3 millj. í fyrra til sjö stjórnarmanna en verða 10,8 millj. til fimm stjórnarmanna. Þetta er hækkun upp á 3,5 millj. ef tekið er tillit til þess að launin hefðu eðlilega átt að hækka um 10%. Miðað við umsetningu og verðmæti þessa fyrirtækis --- það er metið á 40 milljarða --- þá er engin spurning að það er til þess fórnandi að borga 3,5 millj. Ég sem hluthafi þurfti ekki að hugsa mig um andartak til að taka þátt í því að greiða atkvæði með þessu. Ég hef mikla trú og vaxandi á fyrirtækinu og starfsmönnum þess.