Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:49:37 (6245)

2002-03-19 15:49:37# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á að mikilvægt hefði verið að fá besta og hæfasta fólkið í stjórn Landssímans. Við skulum vona að það hafi tekist. Hins vegar blasir við að sá rökstuðningur sem hv. þm. hefur notað, þ.e. að það hafi þurft að hækka launin til þess að ná í þetta fólk, stenst ekki af þeirri einföldu ástæðu að hæstv. samgrh. sagði, þvert á það sem hv. þm. sagði, að nú væri verið að lækka greiðslur til stjórnarinnar. Ef við notum áfram rökstuðning hv. þm. þá hlýtur það að vera þannig að nú hafi afar óhönduglega til tekist og við náð þar af leiðandi í vanhæfara fólk en var þar áður, því nú er verið að lækka launin til stjórnarinnar samkvæmt orðum hæstv. ráðherra, eða hvað? Það er vissulega verið að hækka laun til almennra stjórnarmanna um 130%. En ef við skoðum hins vegar laun stjórnarformanns þá er verið að lækka þau um ansi mikið vegna þess að samkvæmt heimildum virðist fyrrverandi stjórnarformaður hafa verið með 600--700 þús. kr. á mánuði í laun en núverandi stjórnarformaður á að fá 300 þús. Hvar er nú rökstuðningurinn um besta og hæfasta fólkið og þar með hærri laun? Þetta passar engan veginn saman. Er nema von að þjóðin skilji hvorki upp né niður í þessu máli? Hvernig stendur á því að svona er farið með launakjör í þessari stjórn og rökstuðningnum sífellt breytt? Það er sagt eitt í dag og annað á morgun. Hæstv. ráðherra segir eitt hv. þm. Pétur H. Blöndal annað. Þjóðin er að sjálfsögðu hneyksluð á þessari ákvörðun af þeirri einföldu ástæðu að þetta er á skjön við allt sem er að gerast í samfélaginu. Hvergi er hægt að finna sambærileg launakjör í nokkurri stjórn í landinu. Þess vegna, herra forseti, er ljóst að það þarf að gefa miklu betri og fullkomnari skýringar ef við hv. þm. eigum að skilja þessa ákvörðun og ef þjóðin á yfir höfuð að geta séð yfir gjána sem nú hefur myndast á milli ráðherrans og þjóðarinnar.