Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:54:10 (6247)

2002-03-19 15:54:10# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Umræðan er oft dálítið skrýtin. (Gripið fram í.) Reglan er ein og á að vera ein og skýr: Hið opinbera, ríki og sveitarfélög mega ekki og eiga ekki að hafa forgöngu um hækkun launa, (Gripið fram í.) aldrei. Á þetta hef ég bent hér árum saman, þ.e. að því miður hefur verið mjög mikill misbrestur á þessu bæði hjá sveitarfélögunum og hjá ríkinu. (Gripið fram í: Og nú var hann stór.) Þegar ég, herra forseti, fer yfir þetta aftur og aftur, ár eftir ár, bendi á hættuna af þessu, bendi á hvert launin séu að þróast sem hlutfall af samneyslunni, hvert þau séu að þróast sem hlutfall af þáttatekjunum, tekur þá einhver undir með mér? Nei, herra forseti, enginn. Enginn tekur undir með mér. Alltaf þegar ég kem hins vegar í þennan stól og ræði launamál, kemur stjórnarandstaðan með fjaðrafoki í andmæli rétt eins og kominn væri minkur í hænsnahús og mótmælir. Hún mótmælir öllu sem ég segi, mótmælir hagtölunum, mótmælir Hagstofunni, Þjóðhagsstofnun og ég veit ekki hvað og hvað. (Gripið fram í.) Bíddu nú við. Nú bregður svo við (Gripið fram í.) að stjórnarandstaðan fer að mótmæla hækkun stjórnarlauna, gagnrýna það. (Gripið fram í.) Það er mjög gott. Það er alltaf mjög gagnrýnisvert að passa upp á að hið opinbera gangi ekki á undan með hækkun launa því það má ekki. Menn verða hins vegar að vera sjálfum sér samkvæmir. (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert að vera að fjargviðrast hér .... (Forseti hringir.)

(Forseti (GuðjG): Hafa hljóð í salnum á meðan hv. þm. er að tala.)

Það þýðir ekkert að fjargviðrast hér yfir smápeningum, einhverjum þúsundköllum, einhverjum milljónum, einhverjum nokkrum milljónum, þegar menn láta fram hjá sér fara milljarða og milljarðatugi. Það á að gagnrýna allt jafnt. Það er nauðsynlegt að gagnrýna. Það er nauðsynlegt að gagnrýna hið opinbera hvar og hvenær sem það stendur fyrir hækkun vegna þess að hækkanirnar hafa alltaf fordæmisgildi, alltaf hreint. Þess vegna má þetta ekki.