Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 16:09:32 (6251)

2002-03-19 16:09:32# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til laga um samgönguáætlun sem er að mörgu leyti ágætisplagg varðandi stefnumótun til framtíðar og allt gott um þá hugsun að segja sem í frv. birtist, að móta slíka áætlun sem nái síðar yfir aðrar áætlanir, flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun.

Svo hagar til að við í Frjálslynda flokknum eigum ekki fulltrúa í samgn. og langar mig þess vegna að ræða þetta mál örlítið hér. Hér er auðvitað mikið mál á ferðinni, mál sem hefur víðtæk áhrif í samfélagi okkar til framtíðar, bæði byggðaleg, atvinnuleg, félagsleg náttúrlega, og þróunin í þessum málum er ör. Þar ber auðvitað fyrst að nefna að t.d. almennt flug hefur víða verið lagt niður á undanförnum árum og ég tel næsta víst að sú þróun muni halda áfram samhliða því að vegakerfið batnar. Hversu ört það verður er ekki gott að segja, það fer í raun eftir því hvernig vegakerfinu miðar hvaða áfangar koma í þá veru.

En það er alveg ljóst að smátt og smátt verður sama þróunin hér á landi og víða hefur orðið erlendis, að fólk kýs vegina frekar til ferðalaga. Margir nota auðvitað einkabíla en síðan verður sjálfsagt komið á frekari áætlanaferðum til fólksflutninga með batnandi vegum. Þar af leiðandi mun enn draga undan í þeim rekstrargrunni sem flugið hefur og þarf á að halda. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt að menn geri sér ljóst. Menn vita auðvitað að þessi hefur þróunin verið og ekkert bendir til annars en að þróunin verði í þessa veru áfram þannig að með batnandi samgöngum á vegakerfi landsins muni flugið eiga undir högg að sækja.

Sú þróun hefur auðvitað verið erlendis, eins og ég gat um áður, að þar þykir ekki tiltökumál að keyra í einn og hálfan til tvo klukkutíma til að komast að flugvelli. Þó að því sé kannski ekki saman að jafna á okkar landi sem búum við harðari vetur og á norðlægari slóðum er hætt við því að þróunin verði með batnandi samgöngum samt sem áður smátt og smátt sú sama, að menn muni taka þá ákvörðun oft og tíðum að velja sér ferðamáta eftir þjóðvegum landsins. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að hafa í huga og taka það mjög gaumgæfilega með í umfjöllun þegar kemur til þess að móta þá framtíð sem við þurfum að takast á við og þessi áætlun gerir ráð fyrir að við mótum til nokkuð langs tíma en inn í hana komi síðan þessar fjögurra ára áætlanir.

Þegar á að fara að ræða um vegamál, þó að ég ætli ekki að gera það í mjög löngu máli, er vert að minna á að sumir landshlutar eru talsvert á eftir í lagningu vega með varanlegra slitlagi. T.d. má benda á Vestfirði sérstaklega og norðausturhornið að ég hygg þar sem þyrfti að gera verulegt átak.

Síðan ætla ég aðeins að víkja í máli mínu að hinni miklu þróun í vöruflutningum. Vöruflutningarnir hafi farið yfir á þjóðvegina mikið hraðar en menn áttu kannski von á. Og þó að í fylgiskjali frá minni hlutanum, því fylgiskjali sem oft hefur verið vitnað til í þessari umræðu og er umsögn frá Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, sé alveg réttilega bent á hversu mikla orku má spara með því að nota skipaflutningana og hversu miklu stærri einn skipsfarmur er en bílfarmur hefur þetta samt þróast þannig að stór hluti flutninganna hefur farið yfir á vegakerfi landsins.

[16:15]

Ég tel í sjálfu sér að það sé ekki æskileg þróun og væri æskilegra að a.m.k. svokölluð þungavara héldi áfram að fara með skipum. Það sem gerst hefur í sementsflutningum tel ég heldur ekki æskilega þróun. Ég hygg að í sementsflutningunum sé ekki hægt að benda sérstaklega á það að ekki hafi mátt ná sömu hagkvæmni með því að flytja sementið sjóleiðina eins og að setja þá flutninga á þjóðvegina, en tíu sementsflutningabíla þarf til að taka við þeim farmi sem sementsflutningaskipið hefur flutt og orkunotkunin er miklu meiri með flutningabílunum fyrir utan slit á þeim vegarkafla frá Akranesi gegnum Hvalfjarðargöng og síðan til Reykjavíkur til aðalmarkaðssvæðisins. Ég tel því að ákveðin afturför hafi orðið með því að setja þetta yfir á þjóðvegakerfi landsins. Það má auðvitað færa fyrir því rök að það sé líka ákveðin afturför að fara með þungaflutningana yfir í flutningabílana á öðrum vegarköflum landsins í svo miklum mæli sem verið hefur á undanförnum árum.

Hins vegar er ekki auðvelt við þetta að eiga því að gerð er krafa til þess að auka hraða í flutningum og þeir sem framleiða vöru þurfa oft á því að halda að koma vörunni í flutningafar til útlanda á ákveðnum dögum, þannig að það er vissulega hægt að færa fyrir því rök að slíkir flutningar skuli hafa færst yfir á þjóðvegina.

Ég hef líka áður látið þess getið úr þessum ræðustól að auðvitað er það svo að þjónustugreinar á landsbyggðinni, bæði verslun og viðgerðaverkstæði sjá sér hag í því að geta treyst á það að vöruflutningar til þeirra berist daglega og þurfi þar af leiðandi ekki að liggja með stóran lager og fjármuni og geymsluhúsnæði fyrir lager, hvorki í almennri dagvöru né í vöru fyrir iðnað og verkstæði nema tímabundið og nánast það sem menn sjá fyrir að þeir noti næstu vikuna eða hálfan mánuð. Slíkir vöruflutningar á þjóðvegunum hafa auðvitað tryggt það og þess vegna hefur þessi þróun örugglega orðið jafnhröð og verið hefur.

Það breytir því hins vegar ekki að þó að mikið hafi verið unnið að lagfæringu á þjóðvegakerfi okkar á undanförnum árum þá er þjóðvegakerfið enn þannig að ekki er beint fýsilegt að mæta tugum flutningabíla á þjóðvegunum, og er það ekki endilega vegna þess að þeir menn sem keyra flutningabílana séu hættulegir bílstjórar eða eitthvað slíkt, því er yfirleitt ekki til að dreifa, heldur er vegakerfi okkar þannig úr garði gert, mjótt, og aðstæður oft þannig að það er ekkert gamanmál að þurfa að mæta stórum flutningabílum með aftanívagn. Þetta á náttúrlega einkum við að vetrarlagi en auðvitað eru allar aðstæður betri í landsamgöngum á þjóðvegum landsins yfir sumartímann.

Það er því að miklu að hyggja þegar á að fara að móta framtíðarstefnu um samgöngur í lofti, láði og legi við þær öru breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum og virkilega æskilegt að vanda þar til verka. Þess vegna verð ég að segja að ég get að flestu leyti tekið undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan um hið fyrirhugaða samgönguráð sem gert er ráð fyrir í 3. gr. Þar er gert ráð fyrir að þeir sem þar eru nefndir sitji í samgönguráði, þ.e. flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri. Þetta eru menn sem starfs síns vegna hljóta ævinlega að vera að hugleiða störf sín sem ná yfir þau svið sem hér eru nefnd, en það tryggir ekki endilega að önnur sjónarmið séu þar inni.

Samgönguþinginu er sennilega ætlað að uppfylla það að hin mismunandi sjónarmið nái inn í ráðgjöfina og þeir sem þar um fjalla í samgönguráði geti tekið mið af því. Vonandi verður það svo. En það kann vel að vera að samgönguráðið hefði átt að vera öðruvísi samsett og að þeir menn sem eru taldir upp í 3. gr. væru þá því til ráðgjafar og störfuðu með því.

En ekki er þar með sagt að það sem hér er upp sett nái ekki að vinna eins og að er stefnt en við getum vissulega haft mismunandi skoðanir á því hvort æskilegt væri að fleiri sjónarmið kæmu utan að heldur en beinlínis frá þeim mönnum sem eru starfandi eingöngu í þessari grein og störf þeirra eru auðvitað aðgengileg ráðuneytinu á hverjum tíma.

Þetta er í meginmáli það sem ég vildi víkja að. En ég legg áherslu á það sem ég hef áður sagt að það er mikið mál að skoða víðtæka samgönguáætlun til framtíðar og við erum á miklum breytingatímum í samgöngumálum. Ég tel að það sem við þurfum að huga sérstaklega að í samgöngumálunum á næstu árum sé að efla og byggja upp vegakerfið. Þar verðum við að leggja mikla áherslu á að horfa á vegakafla sem geta stytt leiðir, stytt aksturstíma milli byggðarlaga. Ég tel að stytting á ökuleið milli aðalvöruhafna landsins sem eru hérna suðvestan lands og landsbyggðarinnar skipti landsbyggðina afar miklu máli og sé í raun og veru stór hluti af því að tryggja það að landsbyggðin geti haldið velli og geti stuðlað að því að þar dragi úr fólksfækkun og jafnvel að núverandi þróun verði snúið við.

Ég held að fólkið sjálft í landinu hafi í rauninni sýnt okkur nokkuð hvernig það metur hlutfallið á milli flugsamgangna annars vegar og samgangna á þjóðvegum hins vegar. Ég hygg að svo verði að þegar tekst að aka frá Reykjavík og til landsbyggðarinnar á u.þ.b. fjórum klukkutímum eða innan við það fari menn að vega það og meta með sjálfum sér, þeir sem nota þjónustuna, hvort þeir eigi heldur að aka og leggja það svolítið að jöfnu, eða nota flugvélar.

Ég dreg þá ályktun af því að ég held að það sé rétt að ekki var tekin bein formleg ákvörðun um að leggja niður flug á Blönduós eða leggja niður flug til Stykkishólms. Og ætli það hafi ekki verið tekin formleg ákvörðun um að hætta flugi á Sauðárkrók vegna þessa. (Gripið fram í.) Er flogið þangað í dag, föst áætlun? Það er Íslandsflug, akkúrat. Þangað flaug Flugfélag Íslands og ég hygg að þeir hafi tekið ákvörðun um að það flug hafi ekki verið nægilega arðbært. Hluti af því er örugglega sá að vegakerfið hefur verið að batna á undanförnum árum og menn velja frekar að aka. Ég hygg að það geti virkilega farið svo að með styttingu leiða t.d. til Vestfjarða, ef þar væri farin sú leið sem virkilega næði að stytta vegalengdir og lagfæra vegakerfið t.d. til norðurhluta Vestfjarða og suðurhluta Vestfjarða, þá mundu aðrir samgöngukostir sem þar eru í boði núna, eins og flugið, eiga talsvert erfitt uppdráttar. Og vafalaust yrði þar sama þróun og orðið hefur annars staðar að flug með stærri flugvélum legðist af og minni flugvélar yrðu kannski með fleiri ferðir sem þjónustuðu svæðið vegna þess að fólkið sjálft tæki þá ákvörðun að aka þjóðvegi landsins í miklum meiri mæli en ella væri.

Þetta held ég að sé hinn kaldi veruleiki og við þurfum vissulega að taka mið af því þegar við erum að ákveða hvernig við stýrum fjármunum til samgangna á komandi árum. Sama á auðvitað við um siglingarnar. Það væri að mínu viti æskilegt að geta látið sjóflutningana taka þungavöruna. Ég sé hins vegar ekki alveg fyrir mér að við getum beinlínis stýrt því. Þetta er þróun sem við höfum séð víða annars staðar og ég held að samgönguáætlun til framtíðar verði að taka mið af því.

Ég vil að lokum lýsa því yfir að ég er almennt nokkuð sammála þeirri stefnumótun sem lagt er upp með í frv. samgrh.