Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 16:52:52 (6256)

2002-03-19 16:52:52# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um samgönguáætlun. Ég vil í upphafi máls míns geta þess að tilgangur laganna um að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum er mjög góðra gjalda verður. Það skal gert með samgönguáætlun til 12 ára og fjögurra ára áætlun skv. 4. gr. innan ramma samgönguáætlunar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði hér í löngu máli grein fyrir sýn okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í þessu máli þannig að ég skal í sjálfu sér ekki vera langorður. En ég vil benda á það í umræðunni að það er alveg nauðsynlegt að við á hinu háa Alþingi tökum hvern og einn þátt til umfjöllunar og mörkum okkur stefnu um hvernig við viljum sjá samgöngumálin í landinu þróast.

Ég vil meina að við séum í miklum ógöngum hvað varðar samgöngumál víða. Hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um flugmálin sem hafa tekið miklum breytingum núna á örfáum árum og ég tel að það sé þróun sem menn hafa bara látið yfir sig ganga án þess að hafa nokkra heildstæða sýn eða mótað sér stefnu um það hvernig þeir vildu sjá flugmálin þróast í landinu. Það er alveg augljóst að á sínum tíma þegar flugið var gefið frjálst, þ.e. félögum var att út í samkeppni í fluginu, þá leiddi það til gríðarlegra breytinga. Bæði stóru flugfélögin sem kepptu hart á þessum markaði gengu mjög nærri sér hvað varðar eigið fé og landsmenn allir vita til hvers það leiddi. Það leiddi til þess að annað flugfélagið hætti á mörgum leiðum og hitt flugfélagið var mjög illa leikið fjárhagslega eftir þessa rimmu. Það varð til þess að verð flugmiða hefur hækkað gríðarlega og áfangastöðum fækkað.

Þetta hefur gerst bara eftir þróun markaðarins, getum við sagt, og í strjálbýlu landi eins og Íslandi er auðvitað afleitt að láta hluti þróast með slíkum hætti án þess að menn hafi nokkra tilburði á hinu háa Alþingi til þess að marka stefnu og stýra þróuninni.

Í mínum huga er það alveg augljóst mál að samkeppni gat aldrei gengið inn á flugvellina á Íslandi með þeim hætti sem leyft var á sínum tíma. Sjá mátti fyrir að það mundi leiða til þess að menn yrðu hart leiknir peningalega enda er árangurinn kominn í ljós núna, þ.e. færri staðir og gríðarleg hækkun á verði. Það hefur síðan leitt það af sér að menn veigra sér við að nota þessa þjónustu og grípa frekar til bílsins. Það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir okkur að marka stefnu og sjá hvert þróunin leiðir okkur, að stýra þróuninni í samgöngumálum og samhæfa, og að því leyti til get ég tekið undir það sem lagt er til í þessu frv., að tilburðir til þess að samhæfa og líta til lengri tíma eru góðra gjalda verðir.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt fram brtt. sem eru algjörlega nauðsynlegar við þetta lagafrv. að mínu mati því að við verðum að setja inn í frv. heildstæða sýn á það hvernig við viljum þróa þessi mál. Í brtt. hv. þm. Jóns Bjarnasonar er lagt til að samgönguáætlun skuli vera í samræmi við stefnumörkum stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum. Það er nauðsynlegt að þeir sem vinna að stefnumörkun og áætlanagerð í þessum málaflokki viti nákvæmlega hver hugur stjórnvalda er varðandi þróun þessara mála þannig að þeir geti samhæft.

Við sjáum afleiðinguna af sofandahætti undanfarinna ára. Það er sorglegt til þess að vita þegar við lítum til baka að við sitjum uppi með fullbúna flugvelli með glæsilegum flugstöðvum víða um land sem ekkert eru notaðir. Ef það var ætlun stjórnvalda á sínum tíma að stuðla að þessari þróun þá er augljóst að það var óráðlegt og ónauðsynlegt og raunar alveg út í hött að eyða þvílíkum fjármunum sem búið er að eyða í bæði flugvellina og flugstöðvarnar ef hugur stjórnvalda laut að því að framkalla þá þróun sem orðið hefur. Ég lít svo á að það hafi verið gert með þegjandi samkomulagi.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum tilbúin í umræðu um samgönguáætlun á grunni sýnar okkar á umhverfismálin út frá samgöngumálum, á umferðaröryggismálin, sem eru stór þáttur og veigamikill, byggðamálin og auðvitað almenningssamgöngurnar. Ég vil benda á í því sambandi að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram þáltill. um tvo pósta sem við teljum að séu mjög mikilvægir í þessu sambandi.

Við höfum lagt fram þáltill. um strandsiglingar. Við teljum að það sé mjög mikilvægt fyrir allra hluta sakir að huga að því á nýjan leik að efla strandsiglingar inn á hafnir landsins þannig að við getum dregið úr því gífurlega álagi sem orðið er á þjóðvegakerfið. Margir hv. þm. hafa bent á staðreyndir mála, hvernig hlutirnir hafa þróast á allra síðustu missirum. Þetta lýtur auðvitað að málum eins og uppbyggingu hafna og hvert við stefnum þar. En við erum augljóslega á alrangri braut hvað varðar flutninga innan lands. Þeir eru allir að færast inn á þjóðvegakerfið sem er engan veginn í stakk búið eða byggt upp til þess að taka við þessum flutningum. Það hefur komið fram í ræðum margra hv. þm. að landflutningar eru dýrari máti. Þeir menga meira. Í staðinn fyrir að stefna að því leynt og ljóst að færa flutningana upp á land þá eigum við að stefna að því að flytja það sem hægt er með skipum í strandsiglingum á ódýrari og vistvænni hátt. Og ef menn eru sammála um að stefna að slíkum breytingum eða slíkri þróun þá þarf að gera áætlun um slíkt.

[17:00]

Það er ekki eins og við, hv. þm. á hinu háa Alþingi Íslendinga, þurfum að finna upp hjólið í þessum efnum. Í raun og veru er unnið í þessa veru í öllum nálægum löndum. Evrópulöndin öll eru á fullri ferð við að endurreisa almenningssamgöngukerfið í flutningunum líka þannig að flutningarnir séu teknir af þjóðvegakerfinu og settir inn á hagkvæmari leiðir út frá vistfræðinni. Verið er að endurreisa járnbrautakerfi, endurreisa flutninga á ám og síkjum og endurreisa flutninga á sjó eins og komið hefur fram í umræðunni. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt og þess vegna vil ég benda á það og draga fram þessa þáltill. sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum lagt fram á hinu háa Alþingi um endurreisn strandsiglinga, og leggja til að allir tiltækir möguleikar verði skoðaðir til að snúa við þeirri þróun sem nú er í gangi. Og þessi þróun heldur áfram, nú síðast er verið að tala um sementsflutningana sem eru gríðarlega stórt dæmi eins og farið hefur verið í gegnum hér.

Ég vil líka draga fram í þessari umræðu þáltill. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram um almenningssamgöngur í Eyjafirði en samin hefur verið skýrsla um almenningssamgöngur í nýju ljósi sem stuðli að því að bæta þær og auka notkun almenningsfarartækja innan svæðisins. Það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir okkur, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur líka vegna aukins ferðamannastraums til landsins, að við lítum á almenningssamgöngur algjörlega í nýju ljósi. Og þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um almenningssamgöngur í Eyjafirði er byrjunin og módel fyrir því hvernig við viljum fara í þessi mál alls staðar hringinn í kringum landið.

Það er okkur mjög mikilvægt að almenningssamgöngur verði bættar og það er raunar furðulegt að stjórnvöld sem hafa stýrt málum hér um áratuga skeið og gott betur skuli ekki hafa áttað sig á því hvað þau voru t.d. að framkalla í flugmálunum og á móti gert áætlun um almenningssamgöngur sem væru þá til þess að taka við þegar áfangastöðum í fluginu fækkaði. Menn hafa gjörsamlega lokað augunum fyrir nauðsyn þess að fólk eigi möguleika á því að komast með almenningssamgöngum inn á flugvelli landsins, sem nú eru orðnir fáir eftir eins og menn vita, og þess vegna ber brýna nauðsyn til þess að endurskoða og setja upp nýtt plan fyrir almenningssamgöngurnar.

Það gefur alveg augaleið að almenningssamgöngukerfi fyrir landið allt mun kosta einhver hundruð millj. kr. í framlögum. Það samgöngukerfi sem sett var fram í þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fyrir Eyjafjörð mundi kosta um 32 millj. á ári, ef ég man rétt, þannig að ljóst er að almenningssamgöngukerfi sem væri sett upp fyrir allt landið eftir þeirri sýn sem við höfum á þessi mál mundi kosta einhver hundruð millj. í framlögum en við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að slíkum peningum væri mjög vel varið og mundu þeir leiða til gríðarlegs sparnaðar á öðrum sviðum í samgöngukerfinu.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma þessum atriðum að í umræðunni. Þó að hér sé um lagaramma að ræða sem við getum í sjálfu sér öll verið sammála um að sé góðra gjalda verður er alveg ljóst að hér í þinginu verður að fara fram gríðarleg vinna á öllum þessum póstum, hvers konar sýn við höfum, hvernig við viljum þróa samfélagið hvað varðar samgöngur, og það er vinna sem stendur upp á hv. þm. að fara í. Og samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014 sem kemur fram og er unnið að af mætu fólki, að sjálfsögðu, er raunar að stofni til mjög mikið almenn lýsing og úttekt á stöðunni eins og hún er í dag. Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, stendur það upp á okkur að koma með útfærðar tillögur um það hvernig við viljum sjá samgöngumálin þróast sem víðast, og setja fram þingmál þar að lútandi. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er tilbúin í þá umræðu og leggur ríka áherslu á að stuðlað verði að samgönguáætlunum og framtíðarsýn í samgöngumálum sem taki mið af öllum þáttum og þá sérstaklega umhverfismálunum en þau eru gríðarlega stór þáttur hvað varðar samgöngumálin.

Að svo mæltu, virðulegi forseti, ætla ég að láta máli mínu lokið. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við hv. þm. verðum vakandi fyrir því að leggja fram stefnumótun okkar og sýn sem er grundvöllur þess að hægt sé að vinna samgönguáætlun sem vit er í til lengri tíma litið.