Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:06:47 (6257)

2002-03-19 17:06:47# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað og ekki síður þakka ég hv. samgn. fyrir ágæta vinnu við yfirferð yfir frv. og meðferð hennar á því. Umræður um frv. bera það með sér að það er býsna mikil sátt um málið og hlýt ég að lýsa sérstakri ánægju minni með það.

Vegna þess að hv. þm. hafa talað dálítið eins og hér lægi þegar fyrir samgönguáætlun, þ.e. að þetta ágæta plagg sem er tillaga og skýrsla stýrihóps væri í raun og veru samgönguáætlunartillaga, vil ég undirstrika alveg sérstaklega að svo er ekki. Þetta er fyrst og fremst grundvallarplagg sem byggir á vinnu stýrihópsins sem fékk það verkefni að undirbúa það verk sem þurfti að vinna til að hægt væri að leggja fram frv. sem hér er til meðferðar. Þetta vil ég undirstrika sérstaklega. En ef frv. verður að lögum sem ég vona svo sannarlega að gerist verður tekið til við að vinna samgönguáætlunina. Þá verður byggt á þessari vinnu stýrihópsins og þeirri löggjöf sem væntanlega verður samþykkt.

Hér hafa komið fram nokkrar ábendingar og fyrirspurnir sem ég vildi fara yfir. Í fyrsta lagi var nokkuð rætt um samgönguráð, skipan þess og verkefni. Ég vil undirstrika sérstaklega að samgönguráðið er hugsað sem samræmingarvettvangur þar sem forstöðumenn stofnana, þ.e. vegamálastjóri, flugmálastjóri og siglingamálastjóri, fá það verkefni undir forustu sérstaklega skipaðs fulltrúa ráðherra að samræma undirbúningsvinnu og gera tillögu um samgönguáætlun sem síðan verður að sjálfsögðu lögð fram á pólitíska ábyrgð viðkomandi ráðherra.

Ég tel eðlilegt að hafa þennan hátt á og tel í fyllsta máta eðlilegt að embættismenn, forstöðumenn viðkomandi stofnana, komi með þessum hætti að verkinu. En ég hef undirstrikað eftir sem áður að auðvitað verður að gera ráð fyrir því að hin pólitíska stefnumótun sé unnin á ábyrgð ráðherrans sem hlýtur að sjálfsögðu að leita stuðnings hjá þingmönnum kjördæmanna. Sá háttur hefur verið hafður á hvað varðar vegamálin að þingmenn hafa komið mjög mikið að gerð vegáætlunar með samstarfi við vegamálastjóra og Vegagerðina. Ég tel að það sé af hinu góða og vil ekki búa svo um hnúta að í samgönguráð sé safnað saman hópi sem telji að samgönguráð hafi komist að hinni einu og endanlegu niðurstöðu. Ég tel að þarna þurfi að sjálfsögðu að leita sátta og hafa mikið samráð. Þingmennirnir leika stórt hlutverk í samstarfi við ráðherra. Þetta vil ég undirstrika alveg sérstaklega. Þó að embættismenn séu í meiri hluta í samgönguráðinu er nauðsynlegt að minna á þetta.

Ég vek athygli á því að samkvæmt frv. sem hér er til meðferðar er gert ráð fyrir því að flugráð annars vegar og svo hafnaráð komi til skjalanna og veiti ráðherra umsögn eftir að samgönguráð hefur fjallað um mál og gert tillögur þannig að síðan tekur að sjálfsögðu við hinn pólitíski ferill innan þingflokka o.s.frv. En ég vil að skýrt komi fram að þarna þarf að leita samráðs.

Þá kem ég að því sem nefnt var um samgönguþing. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafði miklar áhyggjur af því að samgrh. væri fjarri og heyrði ekki til þingmannsins en ég hlustaði á þá ræðu. Ég tel afar mikilvægt að efnt sé til þessa samgönguþings til þess að ná að grasrótinni, ef svo mætti segja. Og ég tel af hinu góða að hafa skilgreiningarnar svo opnar að nánast sé hægt að kalla alla þá sem að samgöngumálum koma með einhverjum hætti til slíks þings. Ég tel afar mikilvægt að áður en samgönguráð og aðrir þeir sem koma að þessu fari að slá allt í fastar skorður fari fram umræða. Hugmyndin með þessu samgönguþingi er að fram geti farið opin umræða um þessi mikilvægu verkefni, og það er nýlunda.

Hv. þm. Kristján L. Möller spurðist fyrir um það hvort ekki hefði komið til greina að færa umferðaröryggismálin undir samgrn. Ég hef ekki talið sérstaka ástæðu til að efna til þeirrar breytingar og hún er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að þessu sinni. Hins vegar er mikið samstarf milli Vegagerðarinnar og lögreglunnar og í gangi formlegt samstarf og samráð, sem er af hinu góða, enda leggur Vegagerðin mjög mikla fjármuni til umferðaröryggismála og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt. En á þessu stigi sem sagt er ekki gert ráð fyrir þessum breytingum. Í nágrannalöndum okkar heyra umferðaröryggismálin að vísu undir samgrn. En hvað um það, þetta eru breytingar sem ég tel að séu þá seinni tíma mál.

Hv. þm. spurði einnig um flugvellina á Gjögri, í Grímsey og á Vopnafirði og þátt og hlutverk þeirra í samgöngukerfinu. Það liggur alveg fyrir að vitaskuld verður að gera ráð fyrir því að þessir flugvellir verði byggðir upp og þar með flugsamgöngur til Gjögurs, Grímseyjar og Vopnafjarðar tryggðar, og að sjálfsögðu er ekkert sem mælir gegn því. Ég minni á að tillaga stýrihópsins dregur saman upplýsingar um alla flugvelli, og ég tel að það sé eðlilegt að í samgönguáætluninni, þegar hún kemur hér til meðferðar, verði að sjálfsögðu fjallað um þessa flugvelli og hvar þeir eru flokkaðir. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að á Gjögri og í Grímsey er alveg óhjákvæmilegt að byggja sem best upp aðstöðu á flugvöllum. Það sama er að sjálfsögðu uppi á teningnum á Vopnafirði en með bættum vegasamgöngum kann það að breytast. En hvað um það, ekki er gert ráð fyrir neinu öðru en að Vopnafjarðarflugvöllur verði áfram inni í þessu kerfi.

[17:15]

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, 6. þm. Norðurl. e., talaði um að stefnu skorti í flugmálum. Ég er ekki sammála því. Sem samgrh. hef ég lagt mjög skýrar línur hvað varðar flugmálin, þjónustu flugsins í landinu, með því að standa að útboði á tilteknum flugleggjum til þess að tryggja samgöngur með aðkomu ríkisins. Með útboðinu er verið að veita styrki og það er mjög klár stefnumörkun sem felst í því og ég tel að hv. þingmenn hafi fjallað um það á ýmsum vettvangi.

Hv. þm. nefndi einnig að brtt. hv. þm. Jóns Bjarnasonar væri mikilvæg vegna þess að koma þyrfti því að í löggjöfinni að samgönguáætlun fjallaði um umhverfismál og almenningssamgöngur og öryggismál.

Það er sérstaklega tiltekið í grg. með frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Samgönguáætluninni er ætlað að verða mun víðtækari en fyrri áætlanir. Auk framkvæmdaáætlana tekur hún til öryggismála, umhverfismála, almenningssamgangna og fjármögnunar samgöngukerfisins svo að eitthvað sé nefnt.``

Það er því alveg kristaltært að gert er ráð fyrir því að samgönguáætlun, og lögin tryggja það þar með, fjalli um þessa þætti, þannig að ég tel að fyrir þessu sé vel séð.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson nefndi einnig endurreisn strandflutninga. Ég held að út af fyrir sig sé ekki ástæða til að hafa mörg orð um það að þessu sinni í tengslum við afgreiðslu frv. Strandflutningar eru sérstakt verkefni, viðfangsefni, sem ekki er einfalt við að eiga, en ég tel að með samgönguáætlun, samræmdri áætlun um uppbyggingu samgöngukerfisins í landinu ættu stjórnvöld að hafa möguleika á því og tæki til þess að móta stefnu á grundvelli þeirrar löggjafar hvað varðar sjóflutninga. Það er þá bara verkefni í framhaldi af afgreiðslu þessa frv. að fjalla um sjóflutninga ef menn sjá leiðir til þess að efla þá. Hins vegar hefur ekki legið alveg á borðinu hvernig það gæti gerst. Skipafélögin hafa í þessu tilviki farið ákveðnar leiðir, ef svo mætti segja. Eimskip siglir enn með ströndinni, Samskip hefur farið aðra leið, þ.e. upp á land. Þetta er auðvitað val þessara fyrirtækja en ef hægt er að finna hagkvæmari leiðir þá held ég að það sé langlíklegast að atvinnulífið, fyrirtækin, finni þær leiðir fremur en að neglt verði niður í löggjöf að sjóflutningar skuli vera til tiltekinna staða. Ég sé ekki alveg hvernig við gætum tryggt það.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég þakka ágæta umfjöllun og meðferð málsins í þinginu.