Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:28:14 (6262)

2002-03-19 17:28:14# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. talaði um að samgönguáætlunin sem nú liggur fyrir væri bara úttekt. Ég held að við gerum okkur grein fyrir því og þess vegna lýsti ég eftir stefnu stjórnvalda á hinum ýmsu póstum.

Ég vil því spyrja hæstv. samgrh., af því að strandsiglingarnar voru sérstaklega til umræðu, hvort hann geti ekki hugsað sér í framhaldi af þessari lagasetningu að taka fyrir strandsiglingarnar án þess, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að talað sé um að fyrirtækin sjálf stýri þróuninni. Ég held að það sé kannski mergurinn málsins í sambandi við mikið af því sem við fjöllum um í samgönguáætlun vegna þess að ef við tökum mið af reynslu nágrannaþjóða okkar, þá er það nú einmitt ekki þannig að fyrirtækin séu látin stýra þróuninni, vegna þess að Evrópulöndin eru að stýra þróuninni og gera það fýsilegra fyrir fyrirtækin með ýmiss konar aðgerðum að fara inn á strandsiglingar og járnbrautirnar og sú breyting verður auðvitað ekki nema hæstv. ráðherra sé inni á því að fara í þá vinnu með því hugarfari.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort megi vænta þess á öllum þessum póstum sem heyra undir samgöngumálin að farið verði í þá vinnu að setja fram áætlanir sem þjóna ekki bara því að láta fyrirtækin ráða heldur að setja niður þann ramma sem við viljum að fyrirtækin geti starfað eftir út frá markmiðum okkar hvað varðar heildstæða mynd af því hvernig við viljum sjá samgöngumálin þróast í landinu. Ég tók líka flugmálin, virðulegi forseti, og ég taldi að þar hefði orðið þróun á forsendum fyrirtækjanna vegna þess umhverfis sem hv. Alþingi skapaði þeim sem leiddi til verri stöðu en ástæða er til að hafa í landinu.