Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:32:35 (6264)

2002-03-19 17:32:35# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki tilefni til að lengja þessa umræðu. En þar sem ég missti af andsvaratímanum vegna þess að ég var kölluð í síma langaði mig til að nota tækifærið, meðan hæstv. ráðherra hlýðir á þessa umræðu, og hnykkja örlítið á því sem ég minntist á í fyrri ræðu minni varðandi samgönguþing.

Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um að samgönguþing sé af hinu góða og markmið þess sé að laða fram umræðu. Um það deilum við ekki. Hins vegar tel ég að hæstv. ráðherra og hv. samgn. hefði þurft að skoða betur með hvaða hætti samgönguþing verði formað. Hver verður starfsrammi þingsins? Hver setur þinginu reglur og hvaða vægi á þing af þessu tagi að hafa í hinni eiginlegu stjórnsýslu og stefnumótun?

Við þekkjum þetta, herra forseti, mjög vel. Við höfum verið að sýsla með umhverfisþing og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í málefnum sjálfbærrar þróunar. Við vitum vel að við höfum tekið rangar ákvarðanir vegna þess að við höfum ekki undirbúið málin nógu vel fyrir fram. Hv. umhvn. hefur sagt að hún vilji koma að því að setja umhverfisþingi reglur og starfsramma. Hún kemur til með að gera það fyrir vorið. Það var alveg ljóst og enginn ágreiningur um það í umhvn. að við töldum á vanta í frv., þ.e. í breytingunni á lögunum um náttúruvernd, þar sem kveðið er á um umhverfisþing. Nefndin vildi gera bragarbót þar á og ég held að ráðleggingar þær sem ég beini hér til hv. samgn. og hæstv. samgrh. séu þess eðlis að það sé algjör óþarfi fyrir okkur að brenna okkur aftur á sama soðinu, detta aftur í sömu gildruna. Við þurfum að búa til starfsramma fyrir svona þing og setja fram hugmyndir um hverja eigi að kalla til svona þings. Það nægir ekki að segja bara: Með svona þingi ætlum við að ná voða vel til grasrótarinnar.

Herra forseti. Mér finnast ákveðnir þættir sitja eftir, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, sem hv. samgn. hefur faktískt skilið eftir lausa. Þetta er einn þeirra sem mér finnst afar mikilvægt að ekki sé skilið við með þessum hætti.

Ég vil líka benda hæstv. ráðherra á að í umsögn Landverndar um frv. er beinlínis lagt til, til að tryggja breiðari faglega samsetningu samgönguráðs en gert er í frv. --- samgönguráð og samgönguþing koma til með að verða mjög tengdar stofnanir --- leggur Landvernd til að í viðbót við flugmálastjóra, siglingamálastjóra og vegamálastjóra sitji þar einnig forstjóri Hollustuverndar ríkisins, landlæknir og framkvæmdastjóri Umferðarráðs. Það verður ekki séð að nefndin hafi tekið nokkra afstöðu til þessarar tillögu. Ég verð að segja að mér finnst hún góð. Mér finnst að slíkt mundi koma til með að efla þetta samgönguráð. Hún kemur til með að breikka hinn faglega grundvöll sem ráðið stendur á og mér hefði fundist eðlilegt að samgn. tæki formlega afstöðu til þessarar tillögu, sem er afar skýr, einföld og að mínu viti sjálfsögð.

Ég bendi á að hæstv. umhvrh. hefur ekki gengið alveg nógu vel að móta stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld. Það er langtímaáætlun, sambærileg við samgönguáætlun að mörgu leyti, sem vinna átti í náinni samvinnu við grasrótina. Þessi stefnumörkun var lögð fram í drögum 24. jan. 2001. Fólki var gefinn kostur á að koma að henni með því að sitja umhverfisþing. Fjöldi fólks og félagasamtaka sendi inn athugasemdir til umhvrn. og vildi betrumbætur, bæta við, gera nýjar tillögur, lagði fram vinnu sína og vildi gefa kost á sér til að vinna þessa stefnumörkun. Síðan hefur ekki heyrst hósti né stuna frá hæstv. umhvrh. varðandi stefnumörkun um sjálfbæra þróun á nýrri öld. Það er liðið á annað ár síðan drögin voru kynnt.

Ég ætla sannarlega að vona, herra forseti, að aðkoma frjálsra félagasamtaka og almennings að því að móta eða hafa áhrif á samgönguáætlun verði ekki jafnvandræðaleg og aðkoma almennings og félagasamtaka að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld.

Ég minni síðan hæstv. samgrh. enn á að í stefnumótun sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar samþykkti á sínum tíma um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, sem gilti til aldamóta, er sérstakur kafli um samgöngumál. Í þeim kafla eru sett fram mjög verðug markmið. Ég treysti því að þegar samgönguáætlun, hin eiginlega samgönguáætlun, lítur dagsins ljós verði horft til þeirra þátta sem fram hafa komið í stefnumörkun um sjálfbæra þróun og stefnumörkun, sem íslenska ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir sitt leyti, varðandi áætlun um sjálfbær Norðurlönd. Ég treysti því að samgrh. gangist fyrir því að menn setji sér samræmd markmið, mælanleg markmið, ásættanleg, raunhæf og tímasett markmið. Það er nauðsynlegt að þessi viðamikla áætlun verði ekki bara staðlausir stafir heldur siglingarkort sem góðir siglingarfræðingar geti stýrt eftir.