Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:00:16 (6271)

2002-03-19 18:00:16# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:00]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru nú fátækleg svör hjá hæstv. samgrh. enda hefur hæstv. ráðherra kannski ekki áttað sig á hvað í rauninni stóð í textanum þarna.

Ég vil spyrja ráðherrann: Er það ekki nú þegar í lögum um viðkomandi stofnanir, bæði hjá flugmálastjóra, hjá siglingamálastjóra og vegamálastjóra, að þeir skuli vinna að þessum verkefnum á sínum vegum? Og er það ekki líka hið eðlilegasta mál að samgrh. kalli fyrst af öllu þá aðila til sín til að vinna að gerð samgönguáætlunar? Þarf að binda þetta í lög og búa til ráð, ekki síst þegar slíkt ráð á nú að vera undir forustu samgrn.? Þarf endilega að vera að binda þetta í lög? Mér er spurn. Er þetta ekki vinnulag, virðulegi forseti, sem á að vera fyrir hendi og á ekki að þurfa að binda í lög? Mér er alveg óskiljanlegt að binda þurfi í lög að stofnanir samgrn. vinni saman í samgöngumálum, sérstaklega þegar við horfum síðan á það hvað ekki er tekið inn í rammalögin, hvað ekki er tekið inn, eins og það að samgönguáætlunin skuli vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda eins og ég legg til í umhverfismálum, öryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra, hvers vegna má það þá ekki koma inn? Er nauðsyn að binda það í lög að þessar stofnanir samgrn. vinni saman?