Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:04:05 (6273)

2002-03-19 18:04:05# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherra nái því ekki alveg um hvað verið er að tala. Gagnrýni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur laut að því að samgönguráðið væri svo innhverft, þetta væru forstöðumenn stofnana sem þarna væri um að ræða, forstöðumenn sem hæstv. ráðherra ætti bara að nota og beita í hinu daglega starfi við gerð og vinnu við samgönguáætlun. En ef ætti að fara að búa til ráð sem kæmi með nýjar hugmyndir og aðra sýn að gerð samgönguáætlunar þá ætti að fá menn annars staðar frá en ekki búa til ráð með þeim mönnum sem þegar eiga starfsskyldu sinni samkvæmt að vinna að því máli. Það var gagnrýnin sem kom fram á skipan þessa ráðs. Ég tala nú ekki um ef ekki væri skírskotun í lagarammanum sjálfum um það út frá hvaða stefnumörkun ætti að vinna samgönguáætlun þá væri enn þá mikilvægara að aðrir aðilar kæmu inn í samgönguráð og samgönguþing en akkúrat þeir sem eru embættismenn úr viðkomandi málaflokki og hafa þær embættislegu skyldur að vinna að þeim málaflokki hjá hæstv. ráðherra.

Mér finnst því, virðulegi forseti, að ástæða sé til þess að benda hæstv. samgrh. á að lesa frv. aftur yfir og athuga hvað í rauninni stendur í því og þeim brtt. og umsögnum sem gerðar hafa verið við það.