Lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:14:36 (6279)

2002-03-19 18:14:36# 127. lþ. 99.5 fundur 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 73/2002, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hluta samgn. hefur gert grein fyrir er þetta frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum sem varða samgönguáætlun og fleira, afleitt frv. sem tengist því sem við vorum að ræða hér áðan, þ.e. stofnun og hlutverk samgönguráðs við gerð samgönguáætlunar. Í þessum breytingum er gert ráð fyrir breytingu á skipan og verkefni bæði flugráðs og hafnaráðs. Í fyrsta lagi er dregið úr hlutverki beggja þessara ráða frá stjórnsýslulegri stöðu og ábyrgð þeirra beggja. Eru þessi ráð nú fyrst og fremst að verða umsagnaraðilar um þær áætlanir sem samgönguráð hefur lagt til og eru þá umsagnaraðilar um þær áætlanir til ráðherra. Með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til er verið að draga úr vægi og hlutverki þessara ráða. En áfram er þó verið að skipa slík ráð og það er ráðherra samgöngumála sem skipar þau.

[18:15]

Ég vil vekja athygli á því að samkvæmt vegalögum er ekki neitt vegaráð. Þó teljast vegamálastjóri og Vegagerðin einn af þremur stærstu aðilum að samgöngumálum. Vegagerðin er ekki hvað minnst í þeim efnum. Þar er þó ekki starfandi vegaráð. Stofnunin hefur sótt bæði þekkingu og fleiri sjónarmið annars vegar inn í stofnunina sjálfa og hins vegar er hún ábyrg fyrir að vinna þau verkefni á eigin vegum. Með þessum lögum yrði ekki um jafnræði að ræða. Í vegamálum erum við ekki með neitt vegaráð, en í flugmálum erum við með flugráð og í hafnarmálum með hafnaráð.

Ég tel, virðulegi forseti, að þetta frv. fari of flausturslega í gegnum þingið og gagnrýndi það í hv. samgn. Ég taldi að þarna hefði átt að skoða hvernig hefði mátt samræma hluti eða fá á þá heildstæðari mynd og skýra hlutverk þessara ráða. Ég er í sjálfu sér ekki að leggja til að taka upp vegaráð. Ég er fremur á þeirri skoðun að framkvæmdastjórar og forstjórar viðkomandi stofnana beri ábyrgð á verkum þeirra gagnvart ráðherra en kalli til aðila til að styrkja vinnu sína eins og þörf er á. Það er síðan þingnefnda og Alþingis að leggja endanlega hönd á málin áður en þau verða að lögum.

Ég tel líka afar hæpið að halda áfram með flugráð með skertu verkefnasviði og skertri ábyrgð frá því sem áður hefur verið. Ég tel að skoða hefði átt betur hvort ástæða sé til að starfrækja hafnaráð sem aðeins hafi þessi umsagnarverkefni sem því er ætlað samkvæmt frv. Því er bara ætlað að gefa umsagnir og vera samgrh. og flugmálastjóra til ráðuneytis um málið.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að gera beinar athugasemdir við þessi frv. en tel að það hefði átt að vinna þau miklu betur, átta sig á hvert verið væri að fara og hver hin raunverulegu hlutverk þessara ráða, flugráðs og hafnaráðs væru. Það er ekki sérstaklega skýrt í þessu frv. Það hefði átt að skoða, annaðhvort að leggja þau niður eða að þau hefðu þá önnur og betur skilgreind verkefni. Svo ætti að kanna hvort ekki ætti að vera jafnræði í samgöngumálum, vegamálum og flugmálum. Ég tel, virðulegi forseti, að það hefði átt að vinna þetta frv. miklu betur.