Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:42:44 (6289)

2002-03-19 18:42:44# 127. lþ. 99.11 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, KolH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi og þá skýrslu starfshópsins sem dreift var á borð þingmanna fyrir einhverjum vikum. Það verður að viðurkennast að sú sem hér stendur hefur ekki haft nægilegan tíma til þess að kynna sér það efni sem þar er á ferðinni ítarlega en það er stiklað á stóru í efnisflokkum áætlunarinnar og vinnu starfshópsins í greinargerð með þeirri tillögu sem við nú ræðum.

Það er afar brýnt eins og allir vita að stefnumótun um aukið umferðaröryggi fari fram. Þetta er alveg bráðnauðsynlegt tæki til þess að við í samfélaginu getum sameiginlega tekið á þeim gífurlega ógnvaldi sem umferðarslysin eru og öll viljum við taka á og gera betur í þeim efnum hvenær sem við stöndum frammi fyrir slíkum spurningum.

Það er líka sjálfsagt og þess er getið í tillögunni að takmarkinu með að fækka umferðarslysum um 40% miðað við fjölda slysa árið 2000--2001 verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og áhugahópa um umferðaröryggismál og ég er sannfærð um að allir þeir aðilar sem hér eru nefndir hafa sýnt það í verki fram að þessu að þeir vilja láta gott af sér leiða í þessum málum og vilja vera öflug lóð á vogarskálarnar í þessum efnum.

Síðan kemur fram í lok tillögunnar, herra forseti, að starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega og þá er kannski komið að spurningu til hæstv. ráðherra. Það er spurningin um framkvæmdaáætlunina. Nú kemur það ekki ljóst fram, a.m.k. hef ég ekki séð það að því leyti sem ég hef kynnt mér vinnu starfshópsins og ekki heldur í þessu plaggi hér, till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi, að framkvæmdaáætlun liggi fyrir. Ég vil því aðeins fá að vita meira um það hvenær hún verður kynnt, hvort hún verður kynnt sérstaklega eða hvernig slíkri kynningu verður háttað.

Nú vitum við öll sem hér erum að takmark af þessu tagi sem hér er mælt fyrir af miklum skörungsskap og sett er fram af mikilli framsýni og ábyrgð, það kostar auðvitað peninga að fylgja því eftir. Mér er kunnugt um að nágrannaþjóðir okkar, Norðurlöndin, hafa markaða tekjustofna sem þau hafa sett til þess að bæta og auka umferðaröryggi hjá sér. Ég hef svo sem gagnrýnt það hér áður að iðulega erum við að setja lög sem við vitum svo lítið um hvernig fjárveitingavaldið tekur síðan á, hvernig kemur til með að ganga t.d. í þessu tilfelli að afla þess fjár sem þarf til þess að umferðaröryggisáætlun af þessu tagi geti gengið eftir. Ég tel sjálfsagt að hæstv. ráðherra gefi okkur örlítið betur til kynna hver stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málum er og hvort við getum treyst því að þeir fjármunir sem nauðsynlegir eru til að svona átak geti skilað árangri verði til reiðu.

Í síðustu umferðaröryggisáætlun sem gilti eins og hér hefur komið fram til ársloka árið 2000, þá var meðal atriða sem taka átti á stóraukin löggæsla. Nú hljóta menn að sjá að ef menn ætla að ná enn betri árangri en við höfum náð til þessa, þá hlýtur að verða að standa vel að þeim málum. Við hljótum að verða að sjá aukna löggæslu á vegunum. Umferðaröryggismálin verða auðvitað ekki tekin föstum tökum án umferðaröryggisgæslu og nú væri rétt að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort þetta atriði síðustu umferðaröryggisáætlunar hafi gengið eftir. Var löggæsla á vegunum stóraukin?

Mér er fullkunnugt um að útgjöld til löggæslu- og lögreglumála hafa aukist á undanförnum árum en mér er líka kunnugt um að þar hafa mjög stórir málaflokkar tekið til sín fé. Ég nefni í því sambandi t.d. Schengen-kerfið og Schengen-samþykktina sem tók auðvitað til sín gífurlega mikið fjármagn. Þess vegna held ég að við verðum að fá svör við því hér, herra forseti, hvernig fjármagnið til að stórauka löggæsluna skilaði sér í síðustu áætlun og hvort við getum treyst því að löggæslan verði sýnilegri og öflugri og í hana veitt fé á næsta tímabili sem fram undan er.