Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:39:10 (6297)

2002-03-20 13:39:10# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), KPál
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur upplýst okkur um að framkvæmdir við álver í Reyðarfirði séu komnar í bið eða að alla vega sé ekki ljóst hvernig þetta mál muni þróast. Ég verð að lýsa því yfir að þetta eru ákaflega sorgleg tíðindi og fyrir Austfirðinga er það náttúrlega mikið áfall ef þetta þróast með þessum hætti.

Hæstv. iðnrh. tók þá ákvörðun á sínum tíma að ræða aðeins við einn aðila um þessar álversframkvæmdir, þ.e. við Norsk Hydro en ekki við Norðurálsmenn eða Kenneth Peterson í Columbia. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. iðnrh. hafi ekki hugsað sér að ræða við fleiri aðila í ljósi þeirra tíðinda sem nú eru uppi.

Mér hefur alltaf fundist of mikið gert í því að eltast við Norsk Hydro sem gerði okkur þann grikk í sambandi við Fljótsdalsvirkjun að ganga frá því máli án fullnægjandi skýringa og er síðan að finna leiðir, að því er manni finnst, til þess að ganga út úr þessu máli einnig.

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir að mér finnst að af hálfu iðnrh. hafi verið gert of mikið af því að treysta á að Norsk Hydro komi hingað til þess að byggja álver á Íslandi. Full ástæða er til þess að snúa sér annað. Það er ekki eftir neinu að bíða. Það er búið að draga okkur nógu lengi á asnaeyrunum í þessu máli.