Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:49:47 (6302)

2002-03-20 13:49:47# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Fyrir liggur að afgreiða hér á þingi stórt og mikið frv. um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Þetta er mjög stórt mál í þinginu og mikil ábyrgð að afgreiða það. Það kom því illa við okkur öll að heyra þær sögusagnir að Norsk Hydro væri hugsanlega að draga sig út úr þessu eða fresta. Því vil ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir að gefa þessa yfirlýsingu hér.

Ég leit svo á að þessar sögusagnir þyrftu að fá vandlega skoðun á þinginu og hafði beðið um utandagskrárumræðu um þá stöðu. Ég hafði reiknað með að sú utandagskrárumræða yrði tekin á morgun því að auðvitað setur þessi dráttur Norsk Hydro strik í reikninginn varðandi allar okkar framkvæmdir.

Ég vil minna á að sú yfirlýsing hefur verið gefin að það eigi ekki að fara í virkjanir á Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og þessar miklu framkvæmdir öðruvísi en að kaupandi sé tryggður. Í dag er kaupandinn ekki tryggður. Samt á að halda áfram að afgreiða málið hér eins og eitthvað slíkt sé í farvatninu. Svo er ekki.

Þetta verkefni er í raun sérsniðið fyrir þetta Noral-verkefni og ef Norsk Hydro fer út úr þessu erum við ekki bundin, samkvæmt lögunum, því að nýta orkuna í álver eða aðrar stórframkvæmdir á Austurlandi. Við verðum ekkert bundin af því. Það verður hægt að nýta þessa orku í frekari uppbyggingu álvera og stóriðju á suðvesturhorninu.