Lyf sem falla út af sérlyfjaskrá

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:31:15 (6309)

2002-03-20 14:31:15# 127. lþ. 101.3 fundur 447. mál: #A lyf sem falla út af sérlyfjaskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er að sjálfsögðu jákvætt að ráðuneytinu sé kunnugt um þetta vandamál og viðurkenni það. Það er og jákvætt að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að unnið væri að lausn málsins. Gjarnan hefði maður viljað heyra meira um í hverju sú lausn gæti verið fólgin og hvenær einhverra úrræða yrði að vænta. Ég held að þetta vandamál sé heldur vaxandi en hitt, samanber t.d. það sem ég nefndi, glænýtt dæmi um lyf sem um fjögur þúsund Íslendinga nota daglega. Það féll út af lyfjaskrá um áramótin með tilheyrandi óþægindum, óhagræði og ekki síst kostnaði.

Ég held að það hljóti að þurfa að stefna að því að breyta reglum um skráningu og nýskráningu lyfja hérlendis og gera það auðveldara en nú er að halda eldri lyfjum inni á skrá og jafnvel skrá á nýjan leik, því þess er þörf, mörg gömul og vel þekkt lyf sem hafa dottið út af skrá hérlendis.

A.m.k. er það algerlega óásættanlegt að sá þáttur einn, að lyfin eru orðin svo ódýr sem raun ber vitni, valdi því að þau falli út af skrá. Við getum auðvitað ekki kyngt því að sú ástæða ein, að lyfin eru orðin ódýr og það er lítið upp úr því að hafa að versla með þau, valdi því að þau falli út af skrá og mikill viðbótarkostnaður lendi á sjúklingunum. Þar verða stjórnvöld að grípa inn í, a.m.k. vegna þess að við þessar aðstæður ráðum við. Aðrar aðstæður ráðum við kannski ekki við, t.d. ef erfiðleikar eru í framleiðslu lyfjanna o.s.frv. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að vinna ötullega að lausn þessa máls. Ég trúi því að hún geti fundist.

Áður sá Lyfjaverslun ríkisins um þessa hluti og þeir voru í mjög góðu horfi. Þessir hlutir voru þá óþekktir þannig að hér er reyndar --- ég skýt því inn í, herra forseti, í lokin --- einn angi af blessun einkavæðingarinnar á ferðinni á vissan hátt.