Lyf sem falla út af sérlyfjaskrá

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:34:49 (6311)

2002-03-20 14:34:49# 127. lþ. 101.3 fundur 447. mál: #A lyf sem falla út af sérlyfjaskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég endurtek að ráðuneytið hefur unnið að skoðun á þessu máli í tengslum við Lyfjastofnun. Ég get ekki sagt til um dagsetningu þess er þeirri skoðun lýkur. Ég hef fullan vilja til þess að hraða þeirri vinnu. Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda höfum við fullan skilning á þessu vandamáli.

Ég tek undir að það er auðvitað ekki viðunandi að lyf falli út af skrá bara fyrir að vera ódýr. Ég hef alveg fullan skilning á því. Þetta eru brýn mál vegna nokkurra lyfja, sem ég gæti nefnt, t.d. lyfja við þvagfærasýkingu sem almannatryggingar taka ekki þátt í greiðslu fyrir. Það er þó gert í þeim tilvikum nú þar sem um þrálátar sýkingar er að ræða.

Annað lyf hefur verið nefnt, við vanstarfsemi skjaldkirtils eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi. Það greiddu almannatryggingar að fullu og munu greiða áfram þar sem lyfið er nú á undanþágulista. En það þarf að sækja um lyfjaskírteini, sem ekki þurfti áður. Sama máli gegnir um önnur lyf, t.d. við flogaveiki. En séu þau notuð við flogum af öðrum toga en flogaveiki, sérstaklega vegna aukaverkana af öðrum lyfjum, þarf viðkomandi sjúklingur að greiða sinn hluta í lyfjunum eins og nú stendur. En þessi lyf eru tiltölulega ódýr.

Ég endurtek að ég hef fullan vilja til að hraða þessu máli. Hér er auðvitað ekki um einfalt mál að ræða frekar en mál í lyfjageiranum almennt. Ég hef hins vegar fullan skilning á því vandamáli sem hér er nefnt. Hv. fyrirspyrjandi kom því að í lokin, eins og um að Karþagó skyldi lögð eyði, að nefna einkavæðinguna. Ég ætla hins vegar að geyma þá umræðu þangað til síðar.