Skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:51:37 (6317)

2002-03-20 14:51:37# 127. lþ. 101.6 fundur 542. mál: #A skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr:

,,Hvenær er von á að skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa fyrir árin 1998, 1999, 2000 og 2001 komi út?``

Svar mitt er svohljóðandi: Með lögum nr. 68/2000, um rannsóknir sjóslysa, sem gildi tóku hinn 1. sept. 2000 voru gerðar grundvallarbreytingar á skyldum rannsóknarnefndar sjóslysa. Þessar breytingar kölluðu óhjákvæmilega á endurskoðun á öllum fyrri starfsháttum nefndarinnar. Hinn 1. nóv. á síðasta ári var ráðinn framkvæmdastjóri nefndarinnar og auk hans annar starfsmaður frá síðustu áramótum.

Eitt af því sem ákveðið var að gera grundvallarbreytingar á við endurskoðun á starfsháttum nefndarinnar er það form sem hefur verið á útgáfu ársskýrslu hennar. Vinnslutími skýrslunnar hefur hingað til verið mjög langur, samanber það að skýrslan fyrir árið 1997 kom út árið 2000. Útgáfa þessi hefur því haft miklu takmarkaðra gildi en æskilegt væri enda er megintilgangurinn með útgáfunni sá að kynna rannsóknarniðurstöður nefndarinnar svo að draga megi af þeim viðeigandi lærdóm í því skyni að reyna að koma í veg fyrir að sams konar óhöpp verði aftur, eða að öðru leyti að leitast við að fækka slysum og óhöppum sjófarenda.

Nú um nokkurn tíma hefur verið unnið að því af hálfu nefndarinnar að koma rannsóknarniðurstöðum hennar vegna þeirra fjögurra ára sem fyrirspyrjandi nefndi í útgáfuhæft form. Vinnu við tvö fyrri árin, þ.e. 1998 og 1999, er lokið og rafræn útgáfa skýrslu fyrra ársins hefur þegar verið birt á nýju vefsetri nefndarinnar sem verið er að leggja lokahönd á undir léninu rns.is og væntanlega er árið 1999 um það bil einnig að koma á heimasíðu nefndarinnar, ef það er ekki þegar komið.

Vefsetrið hefur verið opnað fyrir umferð vegna skýrsluútgáfunnar þótt það sé enn í vinnslu en formleg opnun þess verður tilkynnt síðar. Það er sem sagt hægt að komast inn á þessa síðu, rns.is.

Vinnsla hinnar prentuðu útgáfu fyrir tvö fyrri árin er hafin og er stefnt að því að útgáfudagur skýrslunnar 1998 verði fyrir miðjan næsta mánuð og ársins 1999 innan þriggja mánaða frá þeirri dagsetningu. Vinna við tvö seinni árin, 2000 og 2001, er í fullum gangi og er stefnt að því að báðar skýrslurnar verði komnar út eigi síðar en næsta haust.

Þess má að lokum geta að samkvæmt áætlun nefndarinnar um endurskoðaða starfshætti sem þegar er byrjað að vinna eftir verða skýrslur hennar um hvert mál birtar á vefsetri hennar jafnóðum og vinnslu þeirra er lokið. Vinnslan fer fram í nýjum og öfugum gagnagrunni nefndarinnar sem verið er að taka í notkun eins og fyrr kom fram.

Aukið sjálfstæði nefndarinnar með hinum nýju lögum gerir það að verkum að frumrannsókn sjóslysa fer fram hjá nefndinni. Ég vænti þess að það ásamt því að nýr framkvæmdastjóri og starfsmaður hafa hafið störf fyrir nefndina muni leiða til aukinnar skilvirkni í störfum hennar og hraðari vinnslu mála.

Að gefnu tilefni vil ég undirstrika að flutningar nefndarinnar hafa ekki haft áhrif á útgáfu skýrslunnar nema síður væri.