Skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:56:36 (6319)

2002-03-20 14:56:36# 127. lþ. 101.6 fundur 542. mál: #A skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru að mínu viti nokkuð skýr hvað það varðar að þetta hefur dregist, og þetta hefur dregist úr hófi. En augljóst er að menn ætla að gera bragarbót þar á.

Ég fagna því líka að skýrslurnar séu komnar á rafrænt form og komi út jafnóðum því að það er eina leiðin til að menn nái að draga viðeigandi lærdóm af því sem upp kann að koma. Það liggur þá fyrir að ætlunin er að gera á þessu nokkra bragarbót.

Hins vegar vegna þess sem ég nefndi sérstaklega í fyrirspurn minni --- samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa tvö fyrstu árin sem um var spurt, þ.e. árin 1998 og 1999, verið tilbúin fyrir margt löngu. Af einhverjum ástæðum hefur útgáfa þeirra skýrslna dregist. Hins vegar lýsti hæstv. ráðherra því yfir áðan að þessar skýrslur væru komnar á netið og umferð um væntanlega vefsíðu væri nú þegar orðin möguleg. Þá væri fróðlegt að fá að vita hvað hafi tafið svo mjög útgáfu þessara tveggja fyrstu ára sem um var spurt. Eftir því sem mér skilst hafa þær verið tilbúnar í um það bil ár eða meira.